05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

124. mál, stöðulögin

Pétur Jónsson:

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) fékst um, að ekki skyldu allir þingmenn, allir sannir föðurlandsvinir geta orðið sammála um að samþykkja þessa þingsál.till. En þessi ósk hans kemur nokkuð seint fram; að minsta kosti veit eg ekki til, að leitað hafi verið samkomulags um tillöguna, áður en hún var borin fram hér í deildinni. Hér greinir menn eiginlega á um form eða framgangsmáta, en ekki um innihald. Ef háttv. flutningsm. tillögunnar hefir verið það kappsmál, að allir föðurlandsvinir samþyktu hana, þá áttu þeir að bera hana undir fleiri en flokksmenn sína eina. (Benedikt Sveinsson: Við berum hana undir alla þingdeildina). Það er töluverður munur á formi, hvort valinn er sá vegur að taka rökstudda dagskrá eða þingsályktunartillögu. Þgsál.till. er venjulegt form fyrir áskorun til stjórnarinnar um að gera það og það. Þar á móti er dagskrá heppilegt form fyrir yfirlýsing um skoðun þingdeildar á máli, sem deildin að öðru leyti gerir enga ályktun um. Rökstudd dagskrá á því betur við í þessu máli.