18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Lárus H. Bjarnason; Eg ætla að tala mig dauðan strax. — Dauðan, nei, eg er framsögum. minni hlutans í máli þessu. — Háttv. þm. Akureyrarkaupstaðar leit nokkuð einstrengingslega á þetta mál; eins og honum reyndar hættir stundum við; ekki sízt þegar 5. kgk. á hlut að máli. Hann sagði, að til þess væri refarnir skornir af minni hendi, að lögunum yrði frestað sem lengst. Þessu verð eg að mótmæla, eg þykist enga átyllu hafa gefið til slíkra getsaka.

Hv. þm. Akureyrar bjóst við, að brtl., mín mundi ekki auka tekjur landssjóðs að mun frá því, sem þær mundu verða án frestunar, en þetta er vafalaust rangt. Því lengur sem líður milli aðflutningsbanns og sölubanns, því óhægra verður kaupmönnum að byrgja sig upp til söluáranna. Verði ekki girt fyrir aðflutning fyr en 31. Desbr. 1912, njóta kaupmenn tollgreiðslufrests til ársloka 1913 og mundu þá geta lagt hina umliðnu tollupphæð í vínkaup, ef þeim sýndist svo. Af brtl., minni mundi því ekki aðeins leiða, að meira flyttist inn 1912 en ella og þá jafnframt líka greiðast meira í toll það ár,. heldur og það, að landssjóður héldi líklega líkum tolltekjum 1913 af áfengi og hann nú hefir á ári.

Yrði aftur á móti tekið fyrir allan aðflutning áfengis 31. Des. þ. á. mundi að vísu nokkur áfengistollur gjaldast 1912 af áfengi í tollgeymslu, en með lokum þess árs væri hann alveg úr sögunni.

Það tjáir ekki að einblína á það eitt að einstakir menn kunni að drepa sig á brennivíni, landssjóður verður að lifa hvað sem einstaka undantekningum líður. Nú liggur næst að sjá hag næsta fjárhagstímabils borgið. — Komi tímar, koma ráð.

Þá skal eg víkja að hv. 2. þm. Skagfirðinga. Það var eins og hann sæi enga hættu á leið bannlaganna nema frestunina, en þar skjátlast honum vafalaust.

Eg held þeim sé miklu meiri hætta búin af útfallinu, sem hlýtur að verða úr landssjóðnum, ef áfengistollurinn fellur niður án þess, að nokkuð komi í skarðið, heldur en af stuttri frestun, það ættu bannmenn og bindindisvinir að athuga betur en þeir hafa gjört.