18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Framsögumaður (Sig. Stef.) Eg hefi ekki miklu að svara því, sem háttv. 5. kk. þm. sagði, því að hann var sammála nefndinni í höfuðatriðunum, þrátt fyrir breytingartillögu þá, sem hann hefir komið með, og ræða háttv. Strandam. gekk öll í þá átt að styðja frumvarpið, og fyrir það er eg honum þakklátur. Eg skal aðeins taka það fram, að það sem hann sagði um fjárhag landsins hafði eg flest bent á með líku móti við fyrstu umræðu þessa máls.

Það er ágreiningur um það, hvort fresturinn á að vera eitt, tvö eða þrjú ár. Eg hefi ekki heyrt neina fullnægjandi ástæðu fyrir því, að hafa frestinn styttri en þrjú ár, jafnvel svo skýr maður sem hv. 5. kk. kom ekki með neina nægilega ástæðu fyrir því að hafa frestinn ekki nema eitt ár, eins og hann stingur upp á. Eins og eg tók fram við fyrstu umræðu, álít eg ekki nægilegt að blína eingöngu á fjárhag landsins í nánustu framtíð, heldur verður jafnframt að líta á það, hvernig næstu fjárlög verði búin sæmilega úr garði.

Það hefir verið mikið lagt upp úr því, að þetta frumvarp mundi í rauninni ekki verða til að auka tekjur landsins. Hv. þm. Skagf. gekk jafnvel svo langt, að það mundi verða til tekjutjóns fyrir landið. En sannanirnar vantaði. Þetta voru aðeins spádómar. Eg vona, að rök mín og annara í þessu máli nægi til þess að sanna það, að frumvarpið hljóti að verða til tekjuauka; og vona eg, að þau rök megi meira en eintómur höfuðburður og spádómar, því að þau eru bygð á reynslu undanfarandi ára. Það er altaf verið að staglast á þessu, að vínsölumenn muni birgja sig svo mikið upp, að landsjóður muni fá jafnmiklar tekjur af víntolli á þessu eina ári, eins og annars á þremur árum. En því neita eg algerlega. Það þarf ekki nema heilbrigða skoðun á viðskiftalífinu til þess að sjá, að svo getur ekki orðið. Og eg skal taka það fram, að þó að lögleiddur kynni að verða frestur á tollgreiðslunni, þá geta kaupmenn ekki birgt sig upp með allar tegundir af vínföngum til alls þessa þriggja ára tímabils. Þeir geta ekki keypt miklar birgðir af þeim tegundum, sem ekki þola geymslu, t. d. af öli, því að það geymist ekki meira en tvo til þrjá mánuði óskemt. Líkt má segja um sum mild vín, hin svokölluðu köldu vín. Þau geymast ekki mörg ár. Afleiðingin af bannlögunum, eins og þau eru nú, hlýtur því að verða, að á þessu þriggja ára tímabili verður mest drukkið af sterkum vínum, einmitt þeim tegundum, sem að kenningu bindindismannanna eru skaðlegastar. Þetta liggur í hlutarins eðli, því að hinar tegundirnar þola ekki geymsluna.

Ennfremur skal eg taka fram eina ástæðu enn, sem gerir það ólíklegt, að vínsalar geti birgt sig upp til muna. Það eru fjárhagsástæður þeirra. Mér er sagt, að það muni vera kringum 15 vínsalar á öllu landinu. Ef gert er ráð fyrir að þessir 15 menn kaupi sér vínbirgðir til þriggja ára, svo miklar að tollurinn næmi 300,000 krónum, þá mundu þeir verða að leggja út 600,000 krónur fyrir vínið. Halda menn nú, að 15 vínsalar hafi efni á að leggja svo mikið út í einu. Það yrðu til jafnaðar 40,000 kr. á hvern, og svo mikið fjárframlag væri þeim flestum sjálfsagt ofvaxið. Þar við bætist og, að þeir mundu ekki þora það, meðal annars af því að ef þeir deyja, verða allar birgðirnar ónýtar. Þá standa margir tugir þúsunda fastir, sem búi þeirra mundi verða alónýt eign. Þetta held eg, að hver hygginn maður mundi líta á, og hugsa sig vel um áður en hann leggur svona mikið fé í hættu. Auk þess efast eg um, að vínsölunum yrði greitt um peningalán til slíks. Eg efast um, að bankarnir mundu vilja lána út á vínbirgðir, þó forsiglaðar væru og geymdar.

Það hefir verið talað um að lengja tollgreiðslufrestinn, en eg verð að segja, að ekki er það meira í bindindisáttina en mín tillaga. Það er aðgætandi frá bindindismanna sjónarmiði, að mín tillaga gerir enga breytingu á því, hve lengi verður drukkið í landinu. Þó að frumvarpið gangi ekki fram, verður vín alt að einu í landinu til 1. jan 1915, en frá þeim tíma er ætlast til að bannlögin komi að fullu í gildi.

Sumir óttast, að svona langur frestur muni verða hættulegur fyrir bannlögin, og að því leyti sé betra að hafa frestinn sem styztan. Eg held þvert á móti, að einmitt þriggja ára frestur sé hættuminstur, því þá kemur sölubann og aðflutningsbann í gildi á sama tíma. Eg get líka hugsað að svo kunni að fara, að þegar t. d. eins árs frestur væri útrunninn, þá lægi ef til vill enn þá meira á tekjum í landsjóð en nú, og þá kynni að verða gripið til að fresta lögunum aftur. En ef fresturinn er nægilega langur í fyrstu, eru meiri líkur til, að tími vinnist til að undirbúa aðra tekjustofna, svo að ekki þurfi að grípa til nýrrar frestunar á bannlögunum.

Að því er snertir þá skoðun sumra háttv. þm., að það megi afla landsjóði tekjuauka á annan hátt, þá er það athugavert, að frumvörp þess efnis eru ekki komin í lög. Eg vil sérstaklega nefna frumvarpið um farmgjald, sem nú liggur fyrir n. d. Það er lítil von til þess, að það frumvarp verði samþykt á þessu þingi, meðal annars af því, hve tíminn er orðinn stuttur. Það er skylda allra þingmanna að athuga fjárhag landsins sem bezt. En eg vil segja að það er ekki ætlandi þingmönnum að undirbúa flókin skattalög. Það er verk stjórnarinnar, og það hefir hún vanrækt. Þingmenn skortir venjulega bæði sérþekkingu og tíma til þess að undirbúa slík lög. En stjórnin hefir öll tæki til þess, og þingið á ekki að þurfa að gera annað en að athuga þær tillögur í þessum efnum, sem stjórnin leggur fyrir það. Ef skattalög eru ekki þannig undirbúin, er hætt við, að þau séu í lausu lofti bygð.

Auk þess vil eg taka það fram, að þó að bæði farmgjaldsfrumvarpið og þetta frumvarp næði fram að ganga, þá verða tekjur landsjóðs sannarlega ekki of miklar fyrir því. Það er eins og sumir hv, þm. séu hræddir um. að það kunni að hækka of mikið í skúffunni. Milliþinganefndin í skattamálum hélt því fram, að það væri bráð nauðsyn á 200,000 króna tekjuauka, þó að vínfangatollurinn héldist. En nú eru sumir háttv. þm. ánægðir, ef þeir geta knúð fram 300,000 króna tekjur af farmgjaldi, þó að áfengistollurinn falli niður. Eg tek munninn miklu fyllri en skattamálanefndin. Eg álít, að við getum ekki komist af með minna en 3—4 þúsund kr. tekjuauka, ef við eigum að geta fullnægt kröfum þjóðarinnar um fjárveitingar til bráðnauðsynlegra fyrirtækja.

Þeir vilja láta það draslast, hvert fjárhagstímabilið eftir annað, afgreiða fjárlögin með mörg hundruð þúsund króna tekjuhalla. En af því leiðir það sama fyrir landsbúskapinn eins og fyrir búskap einstakra manna, afturför, eymd og volæði. Menn eru að tala um, að nú sé gott ár, og það er ekki nema gleðilegt. en það dugar ekki, því það getur komið harðæri á eftir þessu góða ári, alveg eins og góðæri hvert árið eftir annað.

Eg veit fyrir víst, að margir hinna áköfustu bannmanna líta svo á þetta mál, að þeir telja jafnmikið skaðræði hvort fresturinn er stuttur eða langur. Eg fyrir mitt leyti álít, að lengri fresturinn sé miklu heppilegri en styttri fresturinn frá bannlagamanna sjónarmiði. Og að halda því fram, að hér sé ekki um verulegan tekjuauka að ræða, það má eg ekki heyra skynsama menn segja, þar finna þeir ekki orðum sínum stað.