31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingrímur Jónsson:

Eg stend upp til að taka það fram, sem mér láðist að geta um áðan, að þótt eg sé ekki staðráðinn í að koma með breytingartill. við frumv., þá áskil eg mér samt rétt til að gera það við 3. umr.

Eg skal og geta þess út af því, sem hv. 5. kgk. þm. sagði, að eftirlaunin mættu ekki vera svo há, að menn hefðu ástæðu til að spekúlera í þeim, að eg lagði og legg áherzlu á, að ráðherraefni „spekúleruðu“ ekki í eftirlaununum. Þótt það sé ákveðið í núgildandi ráðherra-eftirlaunalögum, að konungur hafi rétt til að ákveða eftirlaunin alt að því 3 þús. kr., þá sé eg ekki, að það sé ástæða til „spekulationa“ í þeim. Ætli það sé ekki frekara annað, sem hætt sé við að menn spekúleri í? Eg verð og gagnvart háttv. framsögum. (Jós. Bj.) að halda fast við það, að þingið hefir ekki komið þannig fram hingað til gagnvart bænum um launaviðbætur og eftirlaun, að ástæða sé til að ætla, að það mundi fremur neita bænum frá fráförnum ráðherrum, svo að fjársparnaðurinn að þessu frumv. verður lítill eða enginn.

Eg get þess og, að eg gæti verið með afnámi eftirlaunanna, ef launaaðstaða ráðherrans er trygð á annan hátt, þannig, að það sé ekki gerð of mikil hætta fyrir menn að taka sig upp frá starfi sínu og taka að sér ráðherrastöðuna. En eg legg samt aðaláherzluna á, að launin séu svo há, að engin ástæða sé til þess fyrir ráðherrann að færa sér í nyt þann óbeina hagnað, er hann getur haft af embætti sínu. Það er þetta, sem þarf að tryggja honum. Laun embættismanna í Reykjavík eru nú svo lág, að þau eru ekki nema til dúks og skeiðar. Það er því ekki rétt að afnema eftirlaun, nema það sé um leið trygt, að þeir geti lifað óháðir, svo að það leiði ekki til skaða og spillingar.

Háttv. framsögum. fanst mjög til um það, að eg hefði haft orðið skálkaskjól um þetta frumv. Mér datt ekki í hug að brúka það um hann. Hann hefir sjálfur sagt, að tilgangurinn væri að færa eftirlaunin niður og dettur mér ekki í hug að efa að það sé tilætlun hans með frumvarpinu.

En tilgangur flutningsmanna málsins í neðri deild var annar. Frumvarpið hljóðaði upprunalega um 1200 kr. biðlaun, en ekki um eftirlaun. Því vóru ummæli mín ekki óréttmæt, en eg beindi ekki orðum mínum að hv. framsögum.