04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Af því að eg mun hafa valdið því, að mál þetta var tekið út af dagskrá síðast, vil eg nú lýsa skoðun minni á því.

Lög þau, er kynnu að verða úr frumvarpi þessu hafa svo sem enga praktíska þýðingu, því að líklega mun ekki nema 1 ráðherra við þau búa, verði stj.skrárfrumvarpið, sem aftekur ráðherraeftirlaun, að lögum. En þau eiga engu að síður að vera réttlát og skýlaus, en eins og frumv. er orðað brestur á hvorttveggja. Það orkar tvímælis og hallar á embættismanninn. Breytingartillagan á þskj. 478 er svo skýr, að hún verður ekki misskilin og hún gerir ráðherrunum jafnhátt undir höfði, hvort sem þeir áður hafa haft embætti á hendi eða ekki. Hvort heldur sem er, fær ráðherra sín eftirlaun 1000 kr. á ári og er það stórmikil hækkun frá því sem nú er. B. J. fékk t. d. 3000 kr. eftirlaun fyrir stutt og slæmt starf. En hafi ráðherrann haft áður embætti á hendi, þá heldur hann eftirlaunum eftir það embætti, komist hann annars á eftirlaun. Og það er engin gjöf, heldur réttur, sem löggjafarvaldið gæti ekki af honum tekið, þó að það vildi fegið.