15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Lárus H. Bjarnason:

Máli þessu mun fyrst hafa verið hreyft í neðri deild af hv. þingmanni Vestmannaeyja, en það kom þá fram í annari mynd.

Var þar farið fram á að þriggja ára fresturinn frá 1. okt. 1908 yrði lengdur um 1½ eða til fyrri hluta ársins 1913. Þetta hafði verið borið undir Lagaskólann og hafði hann ekki á móti því, að svona lagaður frestur yrði veittur, en lengur vildi skólinn ekki hafa frestinn.

Hér er farið fram á, að fresturinn sé lengdur um þrjú ár eða til 1. okt. 1914. En með því væri kandidötum frá Lagaskólanum skapaðir hættulegir keppinautar, þeim einum er vorkun, sem byrjaðir voru á námi við háskólann er Lagaskólinn byrjaði, því þá var ekki í annað hús að venda, og ekki ósanngjarnt, að þeir fái að ljúka sér af þar ytra, en námstíminn mun nú vera þar um 5 ár.

1. þingm. Reykvíkinga hafði getið þess að lögfræðingar frá háskólanum í Kh. kynnu ekki meira í íslenskum en lögum það, að hver hreppstjórinn gæti rekið þá á gat. Og sæti þá sízt á Sjálfstæðismönnum svokölluðum að leysa kandidata þaðan undan prófi í ísl. lögum lengur en góðu hófi gegnir. Þm. Rv. hefir nú líkl. að vanda sagt full-mikið, en þó má það til sannvegar, færast að Kph. kandídatar kunna altof lítið í sérstaklega ísl. lögum. Eða svo var það að minnsta kosti um mig. Hins vegar vona eg, að kandídatar frá Lagaskólanum verði sæmilega að sér í þeim lögum.

En af því hér er um millibilsástand að ræða get eg eftir atvikum verið því fylgjandi, að fresturinn verði lengdur svo sem upprunalega er farið fram á í neðri deild. Og legg eg að svo mæltu til, að sett verði nefnd í málið.