15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Lárus H. Bjarnason:

Eg geri það ekki að kappsmáli, að nefnd verði sett í þetta mál. Það er alveg rétt, sem háttv. þm. Ísafjarðar sagði, að það má laga frumv. með breytingartillögu við næstu umræðu, án nokkurar nefndarskipunar. Eg stakk uppá nefnd aðeins vegna þess, að eg hefi fengið tilmæli um það frá neðri deild. Mér fanst eg geta látið það eftir, að verða við þeim tilmælum, en eg geri það sem sagt ekki að neinu kappsmáli.

Háttv. þm. Akureyrar kveðst ekki sjá neina sanngirnis-ástæðu til þess að lengja frestinn neitt frá því, sem nú er. Eg skal játa það, að mér væri ljúfast að láta sitja við þann frest, sem upprunalega var settur og að þeir, sem ekki hefðu lokið prófi innan þess tíma, yrðu að taka aukapróf við lagaskólann. En sanngirnis-ástæðuna nefndi eg áðan. Lagaskólinn tók til starfa 1908. Þá voru ýmsir lögfræðingar við nám í Höfn, misjafnlega langt á veg komnir og þeim verður ekki legið á hálsi fyrir það, þó að þeir leituðu ekki heim aftur til að stunda nám við lagaskólann, því að hér er námstíminn ákveðinn 4 ár minnst, og þeir gátu ekki búist við að fá neina linun á þeirri kröfu. Þessvegna er sanngjarnt að lengja frestinn nokkuð, til þess að þessir nemendur geti lokið námi sínu áður en fresturinn er útrunninn. Þeir sem voru búnir að vera við nám í Höfn, t. d. 1 ár þegar Lagaskólinn tók til starfa, þurfa að fá frestinn framlengdan svo, að þeir geti lokið náminu á venjulegum laganámstíma þar, sem nú kvað vera talinn 5 ár. — Þetta finst mér vera sanngirnis-ástæða.

Eg hef stungið upp á nefnd. En skyldi sú tillaga falla, mundi eg með aðstoð háttv. þm. Ísafj. geta borið upp breytingartillögu við næstu umræðu málsins.