22.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

109. mál, útflutningsgjald

Flutningsmaður (Sig. Hjörleifsson):

Eins og eg veit að hinni háttv. deild er kunnugt, þá er það ákveðið í lögum, sem samþykt voru á alþingi 1907, að af hverri síldartunnu skyldi gjalda í útflutningsgjald 50 aura. Þetta útflutningsgjald hefir orðið landsjóði notadrjúgt, því að það er nú orðið 100 þús. króna tolltekjugrein. Hinsvegar hefir það orðið ýmsum einstaklingum þungur skattur. Það var ákveðið í sömu lögum (1907), að af þessu útflutningsgjaldi skyldi greiða 10% í fiskiveiðasjóð, og að því fé skyldi varið til eflingar síldarútveg innlendra manna. Það er um þetta atriði, sem þessi grein fjallar um, sem við höfum gerst flutningsmenn að háttv. 3. kkj. og eg. Þótt svo sé ákveðið í lögunum, að þessu fé skuli varið til eflingar síldarútveg innlendra manna, þá hafa samt viljað verða á því meinbugir í framkvæmdinni. Stjórnarráðið mun aðallega hafa farið eftir því, hvað útflutt hefir verið frá hverjum einstökum manni, miðað prócentugjaldið úr Fiskiveiðasjóði við útflutningsgjald hvers manns. En við það fá ýmsir menn, sem kaupa síld og alls ekki veiða hana sjálfir, allmikið fé úr Fiskiveiðasjóði. Ennfremur er þess að gæta, að þetta snertir ekki eingöngu þá, sem „spekulera í síld“, kaupa síld í stórum stíl, heldur einnig þá menn, sem telja sig búsetta hér á landi, en dvelja hér ekki nema 2— 3 mánuði.

Eins og lögin nú eru framkvæmd eru þau ósanngjörn, og það sem vakti fyrir oss flutningsmönnunum var að fá ráðna bót á þessu, fá því breytt þannig, að procentugjaldið kæmi sanngjarnlegar niður. Við viljum miða gjaldið við útgerð skipanna þannig, að það borgist útgerðarmönnum eftir því, hvað mikið veitt er, en að það sé ekki miðað við útflutninginn. Það getur verið, að það megi finna heppilegri útvegu til að ráða bót á þessu; eg skal ekki draga það í efa, og eg er hlyntur því að nefnd sé sett í málið, ekki af því að þetta sé svo mikið mál, heldur af því, að það getur þó verið dálítið varasamt. Eg tel því réttast að vísa frv. að lokinni umræðu annaðhvort til síldarskoðunarnefndar eða til sérstakrar nefndar.