30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

Flutningsmaður (Sig. Hjörleifsson):

Eg vil leyfa mér að benda á það, sem mér fanst ekki vera nægilega ljóst hjá háttv. 3. kg.kj., að hér er aðeins að tala um útlendinga, en ekki innanríkisskip, eins og glögglega má sjá af lögunum, sem hér er vitnað til. Mér fanst sem háttv. 3. kg.kj. bæri hag útlendinganna alt of mikið fyrir brjósti. Það var eins og honum þætti leitt að þeir verði að hlýða lögunum eins og landsins eigin börn. Því er eg ekki á. Hann talaði um, að lög þessi mundu koma órétt niður. Eg get heldur ekki skilið þá röksemdafærslu. Maður gæti þá eins sagt, að öll lög kæmu misjafnlega rétt niður, þegar einum helst uppi að brjóta þau, en annar lætur það vera af réttlætis og sómatilfinningu. En það kalla eg ekki, að lög komi óréttilega niður, þó sumir brjóti þau, en sumir ekki. Eg álít réttast, að eitt gangi yfir alla. Og þetta frumvarp fer einmitt fram á að lögin gangi jafnt yfir alla, komi ekki ójafnt niður. Það styður að því, eftir því sem hægt er, að útlendingar verði að hlýða lögum þessa lands. Eg get ekki litið svo á, að umsögn nokkurs manns, hvorki háttv. 3. kgkj. eða mína eigin, beri að meta meir í þessu máli, en álit þeirra manna, sem hafa fengist við að halda uppi strandvörnunum; en það eru 2 skipstjórar á „Íslands Falk“ hvert árið eftir annað. Þeir segja, að þetta sé skilyrði, einkaskilyrðið, til þess að sæmilegri landhelgisvörn verði haldið uppi. Að mínu áliti er þetta svo einfalt mál og frumvarpið svo stutt, að ekki mun þörf að setja nefnd í það. Ef gjöra þyrfti breytingar á frumvarpinu væri hægt að koma fram með breytingartill. um það. Nú er liðið svo langt á þingtímann, að ekki mundi vera heppilegt að setja nefnd.