07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

28. mál, sala kirkjujarða

Steingrímur Jónsson:

Eg vildi leyfa mér að gera örstutta athugasemd. Þessari sölu hagar hér alt öðruvísi en áður en lögin um sölu þjóðjarða og kirkjujarða gengu í gildi.

Sýslunefndin á að eins að athuga, hvort ekki sé brotið á móti 2. gr. þjóðjarðasölulaganna og 2. gr. kirkjujarðasölulaganna. Eg hefi altaf sjálfur verið persónulega mótfallinn þjóð- og kirkjujarðasölu og er það enn. En samt get eg gefið þessu frumvarpi atkvæði mitt, því það miðar að eins til að gera lögin réttlátari og ákvæði þeirra skýlaus.