06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

120. mál, farmgjald

Stgr. Jónsson:

Eg ætla að eins að gefa stutta yfirlýsingu. Það er mikið talað um ábyrgð hér í dag, og sagt að ábyrgðin hvíldi á okkur af að drepa þetta frv. Eg get lýst því yfir, að eg tek á mig minn hluta af þeirri ábyrgð, og skal eg ekki reyna að velta henni af mér yfir á aðra. En eg hygg að meira liggi undir þessum orðum; það eru víst engar öfgar þó eg segi að meiningin með þessu tali um ábyrgð sé sú sama, sem hjá einum þingmanni í n. d., er vildi koma yfir á okkur heimastjórnarmenn ábyrgðinni á fjárhagsútlitinu eftir fjárl., svo að okkur verði kent um það. Hvort það tekst að koma því svo fyrir, skal eg ekki um segja, úr því skera kosningarnar. En þó hygg eg, að meðferð mála á alþingi bendi á það gagnstæða. En það liggur líka enn annað á bak við þetta frv. Það er barið fram undir því yfirskini, að það geti haft þýðingu fyrir fjárhag landsins, og það er enn skiljanlegra að sjálfstæðismenn vilji gjarnan koma yfir á okkur ábyrgð á fjárhagnum yfirleitt. Þessa ábyrgð verðum við heimastjórnarmenn einnig, að minni hyggju, að taka á okkur, hvort sem okkur er það ljúft eða leitt; því við erum þeir einu, sem nokkur ábyrgð er í í þessum efnum.