06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

120. mál, farmgjald

Ráðherra (Kr. J.):

Háttv. þm. V.-Ísf. sagði, að einhver lögreglustjóri hefði sagt sér, að þessi farmgjaldslög væru vel framkvæmanleg, eg veit með vissu að það getur ekki verið mikilsvirtur náfrændi hans, sem þetta hefir sagt; hann met eg mikils og mundi eg geta beygt skoðun mína fyrir rökum af hans munni, en þaðan munu þau eigi koma til stuðnings þessu frumvarpi. Þó að einhver lögreglustjóri kunni að hafa fleiprað þessu út úr sér við hv. þingmann V.-Ísf., þá legg eg eigi mikið upp úr því; eg hefi spurt ýmsa lögreglustjóra einmitt um þetta atriði, og þeir telja allir saman þessi lög alveg óframkvæmanleg, nema með mikilli aukningu á skrifstofufé og fjölgun á eftirlitsmönnum. Það þarf heldur ekki annað en að lesa t. d. 3. flokkinn, og þá sést það þegar, að flokkuninni er svo háttað, að hún heimtar fullkominn mann á hverjum stað. Hér í Reykjavík þyrfti marga menn. Fyrir þessu er ekki gert neitt ráð af þeim, sem borið hafa fram þetta frumvarp. Þeir hafa ekki gert neitt ráð fyrir þeirri breytingu, sem hlýtur að verða á tollgæzlunni. Og lögin eru öll frá upphafi vanhugsuð. Þingmanni Akureyrar ætla eg ekki að svara. Hann hefir aldrei, hvorki á síðasta þingi eða nú á þessu þingi, sagt eitt einasta orð í einu einasta máli, sem talist getur þess vert, að því sé svarað.