03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Magnús Blöndahl:

Eg skal ekki vera langorður um þessar tvær greinar

fjárlaganna, sem hér liggja fyrir, en aftur á móti mun eg tala ítarlegar um 16. gr. þegar hún kemur til umræðu hér.

Eg get ekki varist því að láta í ljósi undrun mína yfir því, hvað háttv. fjárlaganefnd eru mislagðar hendur í tillögum sínum. Það lítur svo út, sem henni þyki aldrei nógu miklu fé sé varið til ýmsra vissra fyrirtækja, en hún hefir ekki hikað sér við að klípa af styrkveitingum til annara fyrirtækja, sem eru alveg eins nauðsynleg, en sem mundu verða að lifa nokkurs konar sultarlífi, ef svo mætti segja, eða veslast upp, ef þessar tillögur nefndarinnar næðu fram að ganga. Hæstv. ráðherra og háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) hafa þegar talað um skólana og hversu óviðeigandi það er að heimta, að ? hluti á móts við landssjóðsstyrkinn skuli koma annarsstaðar frá. Það er alveg ótækt að binda styrkveitinguna þessu skilyrði. Hvar eiga skólarnir að fá þennan þriðja part, sem þeir eiga að leggja til? Eg þekki suma þessa skóla, og veit að þeir eru stofnaðir með gjöfum frá einstökum mönnum. En þegar eg lít til annara skóla í landinu, sem ekkert er klipið af við — og eg lasta það ekki — þá finst mér þessi aðferð nefndarinnar alleinkennileg. Við eigum ekki að minni hyggju að binda styrkinn því skilyrði, að neitt skuli koma annarstaðar frá. Eg kannast við, að það er orðin venja að veita kvennaskóla Reykjavíkur svo og svo mikið, ef bærinn leggi til þetta eða hitt, en það er mjög ósanngjarnt. Með því að setja slík skilyrði, er þingið að fara í vasa bæjarmanna eða veita fé úr bæjarsjóði. Og mér er spurn, hvaða rétt hefir þingið til þess? Þetta er því undarlegra, sem greinileg skýrsla um hag kvennaskóla Reykjavíkur hefir legið hjá nefndinni. Þessi skýrsla er frá stjórn skólans, og hún gefur mönnum fullkomlega ljósa hugmynd um það, að skólinn er ekki neinn kákskóli. Aðsóknin að honum er svo mikil, að í vetur voru í honum 100 námsstúlkur og 30 varð að vísa frá af þeim sem sóttu, sökum þess að húsrúm vantaði. Í vetur varð stjórn skólans að neita 14 stúlkum um heimavist, af því húsrúm var ekki til. Eg vænti þessi nú, að nefndin játi, að það sé ekki nema rétt og sanngjarnt að fella burtu skilyrðið fyrir styrkveitingunni. Annaðhvort er að veita styrkinn skilyrðislaust eða ekki. Eg skal svo ekki tala meira um þetta að sinni, en geta þess, að við 3. umr. mun eg koma með breytingartillögu við 14. gr.

Þá vil eg leyfa mér að fara örfáum orðum um 23. br.till. nefndarinnar við 13. gr. B I. 2 um að lækka laun aðstoðarverkfræðings landsins úr 2700 kr. ofan í 2400 kr. Eg vænti þess að nefndin hafi tekið til íhugunar bréf stjórnarráðsins um þetta efni? 24 br.till. nefndarinnar er ekkert athugavert við. Það er víst alveg nóg, sem þar er veitt. Ef nefndin og þingið kannast við, að þörf sé á verkfræðingi, þá er það varla gerlegt að bjóða honum lægri laun en þau, sem gert er ráð fyrir í frv. stjórnarinnar. Þetta verk, sem maðurinn á að hafa með höndum, er svo vandasamt og mikilsvert fyrir landið, að þingið á ekki að skera launin um of við neglur sér. Hér er heldur ekki um neinn austur úr landssjóði að ræða, því mismunurinn er einar 300 kr. Það væri miklu meiri ástæða til fyrir nefndina, að láta þetta standa óbreytt og sleppa skilyrðinu fyrir styrkveitingunni til skólanna, heldur en að koma með tillögu um það, eins og hún hefir gert, að gefa eftir 6000 kr. vexti til tóvinnufélags á Akureyri. Ef þetta er ekki hættulegt spor, sem fjárlaganefndin hefir stígið hér, að gefa eftir vexti af láni, sem hefir verið veitt með mjög hagfeldum og vægum kjörum, þá veit eg ekki, hvað er hættuleg braut að komast inn á; hvað verður þá næsta sporið? Sennilega gefa lánið eftir. Þingið verður að vera strangt með það, þegar það veitir lán með kostakjörum, að ganga þá ríkt eftir því, að þessir litlu vextir og afborganir séu borgaðir skilvíslega.

Mér þótti vænt um að heyra, að nefndin hefir tekið aftur tillögu sína við 13. gr. D II. 2 (Björn Þorláksson: Nei). Eg hafði þó skilið framsögum. svo. Annars liggur við að manni blöskri þessi sífeldi austur í ritsímana, það er eins og sú hít verði aldrei fylt, og því miður lítur ekki út fyrir, að menn geri sér mikla grein fyrir þeim óhemju kostnaði er hlýtur að verða, þegar sá tími kemur, að endurreisa verður allar símalínurnar að nýju. Eg held því þessi tillaga fjárlaganefndarinnar ætti að takast aftur. Það er ekki þörf á því að kasta út 66000 kr. á næsta fjárhagstímabili til þess að leggja tvöfaldan koparþráð til Ísafjarðar.

Eg vænti þess, að deildin felli burt athugasemdina um skilyrðið fyrir styrkveitingunni til skólanna og vona að nefndin taki aftur 41. breyttill., svo ekki þurfi að fella hana hér í deildinni Eg mun greiða atkv. móti henni og 57. breyt.till. af ástæðum, sem eg þegar hefi tekið fram.