03.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Eg verð að segja örfá orð út af ræðu háttv. framsm. (B. Þ.) viðvíkjandi bryggjugerð í Hafnarfirði. Hann sagðist efast um það, að Hafnarfjörður gæti lagt fram eins mikið fé og til væri ætlast, þar sem bærinn gæti ekki kostað ? hluta útgjalda til Flensborgarskólans. En þess verður að gæta, að bærinn á ekkert í þessum skóla. Hann er »privat“- gjöf frá merkum manni til landsins alls, og því er sú mesta fjarstæða að halda því fram, að Hafnfirðingum beri skylda til að kosta hann, einkum þegar þess er gætt, að bærinn verður að kosta að öllu leyti dýran barnaskóla fyrir bæinn. Eg varð að minnast á þetta vegna þess, að mér fundust orð háttv. framsm. nokkuð hörð. Annars vona eg, að háttv. deild, sem vill styrkja svo mörg framleiðslufyrirtæki, taki vel í þetta mál, því að það er ekki síður til að styðja framleiðslufyrirtæki en önnur hafnarvirki, sem þingið hefir styrkt.

Þá voru það líka örfá orð út af orðum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) viðvíkjandi styrkveitingu til Jónasar skálds Jónssonar til þess að safna gömlum kirkjusönglögum. Mér er kunnugt um það, að hann hefir unnið afarmikið að þessu starfi alveg styrklaust. Hann hefir lagt mestar sínar eignir og tíma í þetta safn, og þar sem hann hefir starfað svo mikið og áreiðanlega enginn maður er betur að sér í þessari grein en hann, virðist ekki ósanngjarnt, að þingið veiti honum lítinn styrk til þess að halda verkinu áfram.