05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Út af dæmi því, sem hæstv. ráðherra (H. H.) tók, ef tillaga mín yrði samþykt, að þá gæti t. d. bóndi ekki tekið við jörð sinni aftur ef hann t. d. yrði ráðherra um 2 eða 3 ára skeið, þá er því þar til að svara, að annaðhvort á bóndinn ekki að taka við starfinu eða þá, ef hann langar til að verða ráðherra, að láta þá halda áfram búskap á jörð sinni undir sínu nafni, þangað til hann fengi lausn. Gæti hann þá auðveldlega tekið jörðina aftur til ábúðar.

Viðvíkjandi því, sem háttv. framsm. (St. St.) sagði um að margar sjálfsábúðarjarðir væru vel setnar í Norðurlandi, þá ber eg ekki brigður á það; en þó get ég nefnt honum dæmi, undir fjögur augu, úr Eyjafjarðarsýslu, þar sem sjálfsábúðarjarðir eru mjög illa setnar. En aftur á móti eru mýmörg dæmi þess, að þjóðjarðir og kirkjujarðir eru vel setnar, skal eg nefna t. d. Klömbrur í Þingeyjarsýslu. Þar hefir leiguliði búið á jörðinni yfir 30 ár, og hafa leiguskilmálarnir verið vondir og þó hafa fáir bætt jarðir sínar betur en þessi bóndi. Sama má segja um aðra jörð, sem hefir til skammas tíma verið þjóðareign. Það er Brenniás á Fljótsdalsheiði. Þar hafa verið gerðar miklar jarðabætur og jörðin mjög vel setin.

Menn hafa oft og tíðum ráðist í að kaupa ábúðarjarðir sínar án þess að geta og að eins að nafninu til. Og eg get bætt því við, að slík jarðakaup hafa margsinnis staðið mönnum fyrir efnalegum þrifum, og hamlað þeim frá að geta bætt jarðir sínar.