14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

65. mál, fátækralög

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Herra forseti! Það eru ekki mörg ár síðan, að varið var um 170 þús. kr. til að lækna hér kláðarollur, en nú á því herrans ári 1912 er talið eftir að verja nokkuru fé til að bjarga heilsu þjóðarinnar. Eg tel ekki eftir það fé, sem varið hefir verið til fjárkláða útrýmingar, síður en svo. En margfalt meira virði tel eg mannslífin, og þótt varið væri 170 þús. kr. úr landssjóði til útrýmingar hvítadauða, mundi mér ekki ægja. Mér finst undarleg hugsun lýsa sér í br.till. á þgskj. 213; hugsunin er sú, svo að eg taki dæmi, að ef maður missir 1 kú, þá sé sjálfsagt að hjálpa honum, en missi hann 3—4 kýr, þá má ómögulega hlaupa undir bagga með honum.

Háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) hélt því fram, að þörfin væri ekki meiri nú en 1908. Eg hugsaði þó, að flestum væri kunnugt um það, að berklaveikin breiðist óðum út um landið og fer sívaxandi. Styrkurinn úr landssjóði gengur mest til tæringarsjúklinga. Og það mega menn vita, að þótt þetta frv. verði felt nú, mun það rísa upp aftur og aftur. Að bera mönnum á brýn, að þeir misbrúki þetta ákvæði, álít eg allskostar ósæmilegt. Þetta fer eftir samráðum hreppsnefnda og lækna, hverir skuli sendir á sjúkrahúsin, og að bera þeim slíkt á brýn, er ekkert annað en að kalla þá bófa. Hvort málið sé vel eða illa hugsað, skýt eg undir þingdeildina; hún sker úr því með atkvæði sínu.