14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

65. mál, fátækralög

Jóhannes Jóhannesson:

Af því að flutningsmaður breytingartillögunnar á þgskj. 211, háttv. þm. Ak. (G. G.) situr nú í forsetasæti, skal eg leyfa mér að fara um hana nokkrum orðum:

Eg fyrir mitt leyti lít nú svo á, að 77. gr. fátækralaganna eigi ein við, þegar sjúklingar eru eftir læknisráði látnir fara á sjúkrahús annað en en holdsveikisspítala, og að 63. gr. þeirra komist þar eigi að. Sú grein á aðeins við, þegar um venjulegan fátækrastyrk er að ræða en alls eigi þegar t. a. m. maður sýkist á ferð og er látinn á sjúkrahús eða flakk umrenninga eða vitfirringa er heft og þeir að læknisráði látnir á sjúkrahús. Kostnaðinn við þetta að svo miklu leyti sem landssjóður á ekki að bera hann, hvílir eftir mínum skilningi á fátækralögunum eingöngu á framfærslusveit þurfalinganna án þess að hún geti gert þá kröfu til sveitarfélags þess, sem maðurinn hefir sýkst í eða verið hneptur í eftir 63. greininni. Þetta finst mér vera nokkuð augljóst er 77. gr. fátækralaganna er athuguð og vera í fylsta samræmi við 63. greinina.

Til þess að geta heitið „dvalarsveit“ þurfalings verður hann að hafa haft nokkra „dvöl“ þar áður en hann verður styrksþurfandi, en það hafa þeir ekki, sem sýkjast á ferð eða eru heftir fyrir vitfirringu eða flakk og settir á sjúkrahús, enda væri með því lögð þung og ósanngjörn byrði á sveitar- og bæjarfélög þau, sem hafa haft manndáð til þess að koma upp hjá sér sjúkrahúsum eða sjúkraskýlum.

Ef þessum skilningi á fátækralögunum hefði verið framfylgt, væri brtill. á þskj. 211 óþörf, en svo er ekki.

Stjórnarráðið hefir að minsta kosti í einu tilfelli úrskurðað, að bæjarstjórn sem hefti för vitfirrings og lagði hann á sjúkrahús, skyldi borga l/3 af þeim 200 kr. sem á framfærslusveit hans kom. Þetta er ósanngjarnt, því það eru nægileg útgjöld fyrir sveitirnar eða bæjarfélögin að halda sjúkrahúsunum við, þó þær séu ekki látnar greiða meðlag með annara sveita þurfalingum, sem ef til vill hafa ekkert gert til þess að hefta flakkið og sýnt það skeytingarleysi, að láta vitfirringa sína ganga lausa, þótt í gæzlu ættu að vera og gætu unnið sér og öðrum tjón eftirlitslausir. Til þess að fyrirbyggja þann skilning, sem stjórnarráðið í þessu tilfelli lagði í fátækralögin er brtill. á þskj. 211 nauðsynleg og fyrir því vil eg mæla sem bezt með henni.

Hv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að hætt væri við, að sveitarstjórnir í dvalarsveitum myndu að óþörfu leggja þurfalinga á sjúkrahús til þess að losna við 1/3 hluta kostnaðarins, ef brtill. yrði samþykt, og gaf í skyn að þær beittu oft hlutdrægni í þurfalinga-málum.

Eg vil nú ekki með öllu bera á móti því, að fyrir kunni að koma, að sveitarstjórnunum verði slíkt á, en á hitt vil eg benda, að til þess að dvalarsveitin losni við sinn 1/3 hluta af kostnaðinum, verða sjúklingarnir að vera lagðir á sjúkrahús eftir ráði héraðslæknis, en hans úrskurði í þeim efnum verða sveitarstjórnir að hlýða og geta ekki, án þess að baka sér ábyrgðir, neitað að leggja þá menn á sjúkrahús, sem hann fyrirskipar.

Getsakirnar hitta því í þessu tilfelli ekki sveitarstjórnirnar heldur héraðslæknana, en þess þykist eg fullviss, að hinn hv. þm. vill eigi beina neinni aðdróttun um hlutdrægni til þeirra og ber fult traust eins og eg til samvizkusemi þeirra.

Eg mæli með brtill. á þskj. 213, því mér þykir varhugavert að taka úr landssjóði þá stíflu, sem frv. vill gera. Eg vona að hæstv. forseti sé mér samdóma um það, að brtill. á þskj. 211 geti átt við brtill. á þskj. 213 eins og frumv. sjálft.