22.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Hér hefir nú verið lagt til að fara ýmsar leiðir til þess að lækna þetta mein, en áður en greidd eru atkv. finst mér að maður verði að fá að vita hvert meinið er. Ef hér er um allsherjar hækkun að ræða, þá dugir ekki að sprikla, og þá er þetta frv. gagnslaust. En sé það rétt, að það sé aðeins eitt félag, eða fá, sem hafa fært verðið upp, en til séu önnur, sem nú selji steinolíu við vægara verði, þá er auðvitað nokkuð öðru máli að gegna. Nú hefði verið tækifæri fyrir stjórnina að nota símann og spyrjast fyrir um orsökina til verðhækkunarinnar hjá utanríkis ráðuneytinu eða dönskum konsúlum. Það þykist eg líka vita að hún hafi gert, og vil eg því spyrja hæstv. ráðh (H. H.) hverjar upplýsingar hann getur gefið deildinni um þetta efni. Og svo framarlega sem það upplýsist, að hækkunin stafi frá einstökum félögum, þá vil eg gera það sem auðið er til þess, að lækna margumtalað mein, og mun eg þá helzt aðhyllast leið hv. þm. Sfjk. (V. G.), af þeim þrem, sem fram hafa komi. En sé þetta almenn hækkun um allan heim, þá er meinið ólæknandi og ekkert unt við því að gera.