23.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefi frá upphafi verið mótfallinn allri einokun, og vona að eg verði það alt til enda. Reyndar játa eg það, að eg felli mig betur við að ríkið sjálft hafi einokunarverzlunina á hendi, en að það selji hana einstökum mönnum eða félögum á leigu. Og þó mundi ríkiseinokun, eins og hún kemur fram í þessu frumv., verða lítt framkvæmanleg eða jafnvel óframkvæmanleg.

Eg get ekki séð, að frumv. horfi til nokkurra bóta. Fyrst og fremst er það nú ekki upplýst, að hækkunin á olíuverðinu stafi frá þessu einstaka félagi, sem hnekkja á með frumv.

Háttv. 1. þm. G. K. (B. Kr.) segir þvert á móti að hún gangi jafnt yfir öll nágrannalöndin, og þá væri engin hjálp í því að veita þetta leyfi. Og þó að leyfið verði veitt, þá þarf enginn að ætla að fyrir það eitt fáist ódýrari steinolía handa mótorbátunum okkar næstu daga eða vikur. Það tæki langan tíma, að koma þessum lögum í framkvæmd, og stjórninni yrði salan dýrari, en einstökum mönnum.

Það hefir heyrst að rökst. dagskráin sem samþykt var hér í deildinni á dögunum út af stjórnarfrv. hafi verið gersamlega þýðingarlaus, en það er ofmælt.

Eg skal játa það, að lán verður ekki tekið eftir 23. gr. stjórnarskrárinnar nema samkv. lagaheimild. En hér mundi fyrst og fremst ekki þurfa á láni að halda. Tekjuaukinn frá 1910—1911 nemur um 90 þús. kr.

Lotteríið gefur líklega af sér næsta ár um 200 þús. kr., og loks er nú svo gott sem samþ. í hv. Ed. frv. til laga um vörutoll, sem áætlað er að gefi af sér um 250 þús. kr. á ári.

Samkvæmt þessu ætti stjórnin að hafa milli 500 og 600 þús. kr. úr að spila á næsta ári umfram áætlun, og ætti þannig að hafa einhver ráð til þess að birgja landið með olíu, án þess að þurfa að taka lán. En þó að til þess kæmi að lán þyrfti að taka, þá væri dagskráin enganveginn þýðingarlaus, því að líklega færu þeir, er greitt hafa dagskránni atkv. með nafnakalli, ekki að ákæra stjórnina fyrir að hafa gert það sem þeir skoruðu á hana að gera.

Hvernig sem á málið er litið verður frumv. alveg ónýtt, þó að það verði samþykt, enda er stjórninni með því ekki fenginn einkaréttur til annars en að flytja steinolíu til landsins, en ekki einkaréttur til að selja hana í landinu.

Það er og gersamlega ósamboðið fullorðnum mönnum að ætla að keyra frumvarpið í gegnum þingið, svo gott sem nefndarlaust, á einum eða tveim dögum. Það ætti að fara varlegar í aðra eins kúvendingu frá öllum gildandi kaupskaparreglum. Það er skynsamra manna háttur að standa heldur kyr en að rasa fyrir ráð fram, þegar tvísýnt er hvort betra er, áframhald eða kyrstaða.

Það má segja að frumv. lýsi miklu trausti til stjórnarinnar, en eg held að í slíku tilfelli sem þessu mætti hún segja að sælla sé að gefa en þyggja.

Væri eg ráðh., og ætti að fara að neyða mig með lögum til ráðstafana sem eg áliti ekki nokkurt vit í, þá held eg að eg mundi ekki ráða Hans Hátign konunginum til að samþykkja slík lög.

Úr því að eg stóð upp, vildi eg leyfa mér að spyrja hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hvort hann hafi sérstaklega augastað á nokkrum vel hæfum manni til þess að standa fyrir framkvæmdunum á þessu máli, ef til kemur. (Jón Ólafsson: Já, þremur til fjórum úr að velja, heldur en einum). Þess væri ekki vanþörf.

Að lokum skal eg geta þess, að eg tel það til bóta í principinu, að lögin gildi ekki nema til ársloka 1913, eigi endilega að keyra frv. í gegn. Annað mál er það að sú tímatakmörkun bætir það líklega ekki til framkvæmda.