26.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Lárus H. Bjarnason:

Mér skildist að hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) byggist við því, að ef þetta frv., sem sjálfsagt er vel meint hjá honum, næði fram að ganga, þá mundi þegar stafa af því verðfall á steinolíu. Það getur nú ekki orðið, því að vafalaust þyrfti mikinn og langan undirbúning áður en lögin kæmust í framkvæmd og gæti verðið þá verið komið í samt lag aftur.

Þá talaði hann um það, hve kaupmenn hér væru bundnir við steinolíufélagið. Sumir þeirra eru það, en sumir eru líka alveg óbundnir. Eg gæti nefnt eina stóra verzlun hér, sem er því alveg óbundin, og samningar sumra þeirra við félagið eru að því komnir að renna út. Enda er enginn bundinn öðrum samningum en þeim, að selja hér ekki olíu frá öðrum. Hver sem vill getur flutt inn svo mikla olíu sem vill, sér til handa, og svo geta risið upp nýir kaupmenn, sem bæði geta keypt olíu að öðrum og selt hana hér. Það er því misskilningur, að hér sé um einokun að ræða, þar sem fyrst og fremst er ekki einokun á innflutningi, og jafnvel ekki á sölu heldur. Þótt aldrei nema svo sé ástatt, að eitthvað 65% af þeirri steinolíu, sem vér notum, sé frá þessu félagi.