16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

85. mál, strandferðanefnd til að athuga strandferðirnar og Thore-samninginn

Frams.m. minni hlutans (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eins og sést á nefndarálitinu eru tveir vegir færir til að bæta úr strandferðunum. Eg er einn míns liðs samnefndarmanna minna um aðra leiðina. Þó mun eg greiða tillögum meira hlutans atkvæði, ef mínar tillögur falla, heldur en að ekkert verði gert. Eg hefi samið bæði nefndarálitin og undirskrifað.

Aðalárangurinn af starfi nefndarinnar er sá, að oss er nú ljósara en áður, hvers vegna strandferðirnar hafa ekki getað borið sig. Til þess ber fyrst og fremst, að viðkomustaðir eru of margir, svo að skipin hafa víða ekkert að gera. Í annan stað ber það oftsinnis við að gufubátarnir á Faxaflóa, Breiðafirði og Eyjafirði liggja sama dag á sömu höfnum sem strandferðaskipin, og skipin þá hvert fyrir öðru. Þessu mætti kippa í lag með því að fella burt þá viðkomustaði, þar sem strandferðaskipin hafa lítið eða ekkert að gera; þeim stöðum gætu þá flóa og fjarða bátarnir fullnægt, þeir sem styrk hafa af landssjóði. Það ber enn til að strandferðaskipin fá of lítið fyrir þær vörur, sem í þau eru flutt úr millilandaskipunum, en það veldur miklum kostnaði og fyrirhöfn. Úr þessu er einnig auðgefið að bæta.

Það er engin frágangssök að heimila strandferðaskipunum lágt aukafarmgjald, og mér er kunnugt um, að kaupmenn vilja það heldur en að fá vörurnar 2— 3 mánuðum seinna, sem oft ber við nú.

Í fjórða lagi er farþegagjaldið á strandferðaskipunum of lágt hafna á milli, 50 aura hér um Faxaflóa, og sama fjarða í milli á Austfjörðum. Það dregur engan einn mann þó að það væri fært upp í 1 kr., en safnast þegar saman kemur, og útgerðina getur dregið það nokkuð.

Þá þótti og nefndinni einsætt, að Suðurlandsferðirnar væru þungur ómagi á strandferðunum, því veldur hafnleysið. Suðurlandsskipið kemur stundum aldrei, stundum einu sinni eða tvisvar á suma viðkomustaðina, vegna þess að það er ókleift. Það er t. d. ómögulegt að fá áœtlunarbundin skip til þess, að koma við í Vík. Á slíkum stöðum þarf sérstök samgöngufæri, sem haga má eftir veðri og vindi.

Frammi á Lestrarsalnum liggur erindi frá sýslunefndunum í Árnes- og Rangárvallasýslum, um að fá heldur mótorbát til Suðurlandsferðanna, og er enginn vafi á því, að það yrði ódýrara og landssjóði hentara.

Síminn verður nú bráðum lagður austur í Vík, og er þá auðgefið að fá að vita með veðurskeytum úr Vestmannaeyjum, hvenær fært er í Vík. Nefndin er sammála um það, að ef ferðir Suðurlandsskipsins eru lagðar niður, muni sparast svo mikið, að vel megi styrkja mótorbát — jafnvel gefa sýslunum 20— 30 tonna. mótor.

Ágreiningurinn milli mín og samnefndarmanna minna er um það atriði, hvort landið ætti ekki að gera tilraun til að reka sjálft strandferðirnar. Á þeirri skoðun er eg. Svo er mál með vexti, að á síðustu 50 árum hefir aldrei verið annar eins hörgull á skipum og nú í öllum heimsálfum, og er í skipsleigu nú goldið blóðugt fé, og talið víst, að líða muni 2—3 ár áður en skipasmiðir heimsins geti afgreitt nægar pantanir til að bæta úr eklunni. Þegar svo er háttað, er það bersýnilegt, að gufuskipin stíga í verði. Nú vill svo vel til, að Thore félagið er fúst til þess að selja landssjóði strandferðaskipin með sama verði sem þeir kostuðu, og er hér þá tækifæri fyrir landið, sem það ef til vill getur ekki vænzt í 1—2 mannsaldra.

Þar með er landinu lítil eða alls engin áhætta búin, því að ef því svo lízt, getur það selt skipin aftur eftir 1 ár áfallalaust eða jafn vel með ábata. Félagið býður nú landinu skipin fyrir 10 þús. pd. sterl. — 180 þús. kr. — hvert, og er það 11 þús. kr. minna en félagið gæti fyrir þau fengið nú. Þetta tilboð gerir Thorefélagið í greiðaskyni við landið, gegn því, að það verði leyst frá samningnum. Landið gæti þannig gert tilraun með strandferðirnar t d. 1—2 ár, og selt skipin, ef svo sýndist. En þar með væri fengin reynsla um strandferðirnar, og þyrfti þá ekki að gezka út í bláinn á um það, hver halli sé að strandferðunum, þegar til samninga kæmi næst.

Þetta eru ástæður mínar fyrir tillögum mínum og legg eg ríkt að þinginu að reyna þetta.

Eg veit, að ýmsir muni svara því um, að vér höfum reynt þetta áður með Vestu-útgerðinni. En sú útgerð sannar lítið. Það var margt sem því olli. Vesta var bæði millilandaskip og strandferðaskip í samkepni við sameinaða gufuskipafélagið. Þar með var enn gert það öxarskaft, að skipið með áhöfn var tekið á leigu af sjálfum keppinautnum. En bar til samtök meðal kaupmannna að nota Vestu ekki. Enn fremur varð skipið fyrir því slysi að missa stýrið í ís á Akureyri. Loks voru fargjöld og farmgjöld færð niður, svo að við það hefir margfaldlega unnist það fé, sem landssjóður tapaði. Mér liggur við að segja, að tap landssjóðs á Vestu sé fjárveiting, sem bezt hefir verið varið í því skyni að bæta samgöngur.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. J.) hélt því fram, að það væri samkvæmt reglu Manchestermanna, að ríkin rækju ekki slík fyrirtæki, heldur einstakir menn. Reynslan hefir sýnt það, að þessi kenning er villandi, t. d. hafa mörg og flest ríki tekið að sér póstgöngur, ritsíma og járnbrautir. Það er reynslan, sem er hollust og öruggari en allar Manchesterkreddur, sem ekki eru á henni bygðar. Nú reyrast þær póstgöngur bezt, sem ríkin reka, og sama er að segja um járbrautir. Það er bezt að láta ekki bóklega, theoretiska hjátrú hlaupa með sig í gönur. Reynslan er einnig nokkurs virði og haldbetri miklu.

Stjórn skipanna mætti koma auðveldlega fyrir. Eg hefi hugsað mér afgreiðslustofu í Reykjavík eins og nú er, en að skipstjórarnir hafi á hendi reikningsfærslu ferðanna og geri skil eftir hverja ferð. Það hefir gefist betur að skipstjórar og skipshafnir væru íslenzkar. Á Austra hefir jafnan verið íslenzkur skipstjóri, og síðan síðan skipstjórinn á Vestra varð íslenzkur, þá hefir gengið betur en áður. Skipstjórarnir mundu gera sér far um, að ferðirnar gangi vel, því að við það er staða þeirra til frambúðar bundin. Það er bezta tryggingin.

Að öðru leyti þarf eg ekki að lýsa tillögum mínum nánara, læt mér nægja að vísa í nefndarálitíð. Ef mínar tillögur falla, mun eg ganga að tillögum meiri hlutans og þykir engin frágangssök að aðhyllast br.till. þær, er hæstv. ráðherra (H. H.) vildi láta skeyta við.