20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

90. mál, búnaðarfélög

Skúli Thoroddsen:

Af því að eg er annar flutningsmannanna að þessari tillögu, skal eg geta þess, að eg flutti tillögu, sem gekk í líka átt, eins og tillaga þessi, fyrir nokkrum árum, og var henni þá vel tekið af mörgum í orði, þó að ekki næði hún þá fram að ganga.

En það er mikið nauðsynjamál fyrir Vestfirði, að tillaga þessi nái fram að ganga, þar sem staðhættir eru þar þannig, að jarðabætur, eigi hvað sízt túnaslétturnar, eru að mun örðugri og kostnaðarsamari, en t. d. all-víðast á Suðurlandi, vegna grjóts og harðlendis, auk þess hve tíminn er þar mánuðum styttri, sem sinnt verður þar jarðabótum, en hér syðra.

Það er því sízt að furða, þótt margir kunni því illa, hve landssjóðsstyrkurinn til búnaðarfélaganna kemur ranglátlega niður, meðan er sömu reglurnar eru látnar gilda um land alt.

Það mælir alls ekki á móti þessari tillögu þó líkt standi á annarsstaðar, eins og á Vestfjörðum, t. d. á Melrakkasléttu, heldur sýnir það enn betur hve brýn þörfin er á því, að fara eigi að sömu reglum í þessu efni allsstaðar á landinu.

Eg vil því fastlega mælast til þess, að háttv. deild samþykki þessa þingsályktunartillögu okkar.