13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Fyrirspyrjandi (Jón Ólafsson:

Hr. forseti! Það var fróðlegt að heyra svör hv. fyrv. ráðh. (Kr. J.), sérstaklega að hér væri ekki um brot að ræða, þar sem áfengið hafi ekki verið flutt í land. Mættu þá íslenzk botnvörpuskip hafa vín til neyzlu skipverjum innan landhelgi? Það væri svo samkvæmt skilningi hv. fyrv. ráðherra (Kr. J.). Þar að auki er það víst, að útlend skip, sem hingað koma vikulega hafa vín með sér, sem skipverjar flytja í land.

Háttv. fyrv. ráðherra (Kr. J.), virtist vilja rannsaka hjörtun og nýrun, þar sem hann telur þessa tillögu flutta af meinbægni við sig. Hann má halda þar um það, sem hann vill. En það get eg sagt honum einlæglega, að tilgangurinn er ekki að baka honum nein sérstök óþægindi, heldur sá að girða fyrir afleiðingar af áferð hans. Og til þess þarf úrskurð þingsins.

Eg tók eftir einkennilegri röksemdaleiðslu hjá hæstv. núver. ráðherra (H. H.). Hann sagði, að ekki þyrfti að greiða toll af því, sem ekki væri flutt í land. Eg vil benda honum á, að afleiðingin af þessu verður sú, að ef frv. það um kolatoll, sem nú er fyrir Ed., yrði að lögum, þyrftu útlendir koladallar, sem hér lægu á höfninni, ekki að greiða toll, ef ekkert væri flutt í land. Það yrðu aftur íslenzk skip að gera. Þetta er ein afleiðingin, sem sýnir, að næg ástæða er til þess að taka í taumana til að fyrirbyggja að þetta komi aftur fyrir. Þar með er ekki beint neinum ávítunum til háttv. fyrv. ráðherra (Kr. J.) tilgangurinn að eins sá að afstýra hættulegum afleiðingum. Þess vegna leyfi eg mér að afhenda hæstv. forseta tillögu til rökstudrar dagskrár á þgskj. 233.

Þar með ætti að vera komið í veg fyrir, að þetta kæmi fyrir framvegis og vona eg, að menn sjái hver nauðsyn er að gera það.