13.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

72. mál, fyrirspurn um innflutning áfengis

Fyrirspyrjandi (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Það er reyndar ekki ástæða til að lengja umræðurnar frekar en þó vildi eg segja nokkur orð.

Háttv. sessunautur minn (Guðl. Guðm.) sem gefur ráðherranum notarialvottorð, segir sjálfur hvað teljist land eftir lögum. Hann segir: Skip sem liggur við akkeri í landhelgi, eða er bundið festum við land, er sama sem fast land. Eg er samdóma honum um þetta, en hæstv. ráðherra segir nei. Þar er ósamræmi milli notarialvottorðsins og þess, sem vottað er um. Ef þetta sem hér er verið að tala um, er leyfilegt samkvæmt bannlögunum, gætu útlendingar alveg á sama hátt, ef kolin væru tolluð, haft kolaforðabúr hér á höfninni og tekið þau þaðan í skip sín, án þess að greiða nokkurn toll af þeim. (Ráðherra: Um það má setja sérstakt ákvæði). Ef skýring háttv. þm. Ak. (G. G.) á því, hvað land er, er rétt, þarf ekkert sérstakt ákvæði, en ef hæstv. ráðherra hefir rétt fyrir sér, höfum við ekkert vald til að setja ákvæði um þetta.

Háttv. þm. Borg. (Kr. J.) talaði um áfellisdóm yfir sér, en það er enginn áfellisdómur í dagskránni eins og hún liggur nú fyrir. Þá sagði hann að aðflutningbannslögin bönnuðu að eins að flytja áfengi til þeirrar þjóðar er byggir þetta land. En mér er spurn, sker hann ekki úr, að landmælingamennirnir dönsku mættu ekkert áfengi hafa með sér, og þó byggja þeir ekki landið. Nei, aðflutningsbannslögin ná til allra manna sem í landinu eru, hvort sem þeir byggja það eða ekki.

Áður en eg sezt niður vil eg leyfa mér, að svara því er hæstv. ráðherra (H. H.) sagði, að eg hefði tekið nýja stefnu, þar sem eg væri honum ekki samdóma í hverju máli. Vil eg minna hann á að 1905 var eg konungkjörinn þingmaður og fann þá sami hæstv. ráðherra og nú er, ástæðu til, að finna að því við mig að eg, konungkjörinn þm., stæði hvað eftir annað upp til þess að rífa niður stjórnarfrumvörpin. Minni eg á þetta til þess að sýna, að það hefir komið fyrir fyr en nú, að eg hefi ekki verið samdóma hæstv. ráðherra (H. H). Enda skil eg ekki, að þó menn séu fylgismenn ráðherra, eins og eg er pólitískt, þá þurfi menn að fylgja honum að hverju máli og jafn vel þegar hann fer með lögleysu, sjálfsmótsögn og vitleysu.