01.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

6. mál, stofnun yfirsetukvennaskóla í Reykjavík

Einar Jónsson:

Hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir tekið fram mikið af því sem eg ætlaði að segja og get eg því verið stuttorður, Eg get búist við að mér verði brígslað um embættismannahatur út af afstöðu minni í þessu máli, eins og svo oft annars á sér stað, þegar haft er á móti launahækkunum til þeirra Eg skal því taka það fram strax, að það er alls ekki af hatri við landlækninn að eg er á móti frv. í þessari mynd, eg álít hann þvert á móti mesta sæmdarmann og dugnaðarmann í sínu starfi. En eg sé eigi ástæðu til að hækka laun vellaunaðra embættismanna, þó að bætt sé við þá einhverju sem að réttu lagi heyrir starfi þeirra til. Hér er farið fram á að landlæknir fái aukaborgun fyrir starf, sem hann ætti að hafa borgunarlaust. Eg álít réttast að þetta starf verði falið háskólanum, en eigi kenslan að vera undir umsjón landlæknis, þá sýnist mér réttara að fylgja gömlu venjunni, og láta hann hafa 50 kr. fyrir hverja konu sem hann kennir, heldur en að setja fasta vissa upphæð, eins og 1.000 kr. Það er útlit fyrir að alt af verði einhverjar konur á ári hverju sem læri yfirsetukvennafræði, en þær geta verið fáar, t. d. bara ein eða tvær, og þá væri 1.000 kr. alt of mikið, verði þær t. d. 20 fengi landlæknir þessa upph., 1.000 kr., fyrir unnið, en ekki óunnið verk og mælir meiri sanngirni með því. Sé landlæknir tregur til að hafa á hendi kensluna upp á þessi kjör, þá sýnist mér háskólinn vel geta tekið hana að sér. Í læknadeildinni eru 2 fastir kennarar og 4—5 tímakennarar, og er hún því vel mönnuð að mér virðist.

Það hefir verið sagt, að landlæknir mundi heimta sérstakan skrifstofukostnað, ef honum væri ekki veitt sérstök upphæð fyrir þessa kenslu.

Þetta á bls. 15 í tillögum landlæknis um stofnun yfirsetukvennaskóla: „Ef þetta starf væri skilið frá landlæknisembættinu þá yrði óhjákvæmilegt að leggja því skrifstofufé álíka mikið og biskupsembættinu“ skil eg ekki. Eg skil ekki samræmina í því, að landlæknir þurfi frekar skrifstofufé ef hann væri losaður við þessa kenslu en annars. Eg skil heldur ekki að hann þurfi frekar launahækkun fyrir það, að háskólinn hefir tekið við starfi af honum sem hann hafði áður, þ. e. kenslu við læknaskólann.

Eg hafði hugsað mér að tala frekar um þetta mál, en get slept því, úr því hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hefir haldið ræðu í sömu átt og eg vildi hafa talað. Eg er eindregið á móti því að landlæknir fá sérstaka fasta upphæð í stað borgunar fyrir hverja stúlku eins og verið hefir, og komi brtill. um það, að háskólinn taki við kenslunni, þá mun eg verða með henni; annars koma með tillögu fyrir næstu umræðu, sem gangi í þá átt.