09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

20. mál, vatnsveita á Sauðárkróki

Ráðherrann (H. H.):

Það er langt frá því, að eg vilji vera meinsmaður þess frumv. á nokkurn hátt, að Sauðárkrókur fái einmitt þessar reglur um vatnsveitu sem hér er um að ræða. En hið almenna frv. er framkomið vegna samskonar frumvarpsbeiðni frá öðru kauptúni, Siglufirði, sem einnig er byrjað á vatnsleiðslu og verður að sætta sig við að fá reglugerð en ekki sérstök lög, og finst mér langeðlilegast, að sama gangi yfir bæði kauptúnin. Af því að hið almenna frv. er enn ekki komið í gegnum þingið er ef til vill of snemt að fella þetta frumv. nú og væri því réttast að taka það út af dagskrá og bíða, þangað til víst er um afdrif almenna frumvarpsins.