19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

61. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Frams.m. (Lárus H. Bjarnason):

Eg vil benda hæstv. ráðherra (H. H.) á það, að frv., sem einu sinni er búið að „vótera“ inn á dagskrá, verður ekki af dagskránni tekið, nema það sé „vóterað“ út aftur.

Háttv. þm S.-Þing. (P. J.) vil eg svara því, að hér er enginn að leika sér með tímann. Við vildum aðeins að það frv. yrði tekið fyr til umræðu, sem er löglega inn í deildina komið. Eg er sammála háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), að verði dagskráin samþykt, þá eru bæði málin þar með fallin, en eg vildi bara heldur að hann hefði geymt að segja þetta þangað til seinna. Eg er honum líka sammála um það, að nægur tími sé til að afgreiða þetta mál á þessu þingi; það getur hver reiknað út, sem kann að telja til laugardags eða mánudags. Enda á nú einmitt, fyrir milligöngu ráðherra, að flýta með afbrigðum frá þingsköpunum máli, sem skemra er á veg komið.