24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Pétur Jónsson:

Eg skal segja það hreinskilnislega, að eg hefi enga samvisku af að hækka dagpeninga þingmanna. Mér skildist að sumir hinna háttvirtu þingmanna væru hræddir um að verða bendlaðir við að hafa um of dregið sjálf síns taum, ef hækkunin gengi í gildi fyr en eftir næstu kosningar. Það er eg fyrir mitt leyti ekkert hræddur við. Eg þykist eiga þessa hækkun skilið, því að eg er búinn að vinna mörg ár fyrir 6 kr. á dag. Að fastákveða ferðakostnaðinn eins og gert er í frumv. lækkar hann frá því sem nú er. Það er mesta fjarstæða að þm. hafi tvöfalda dagpeninga á ferðunum, eins og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hélt fram áðan. Hann gerði ekkert fyrir því að þm. er fæðið dýrara á skipum en heima. Eg hefði ekkert haft á móti því, þó engin munur hefði verið gerður á þingmönnum búsettum í Reykjavík og hinum sem utan Reykjavíkur búa, en hitt er ósanngirni og fjarstæða að þingsetan sé ekki þingmönnum, sem búsettir eru utan Reykjavíkur dýrari en Reykvíkingunum. Fyrst og fremst verða þeir að kaupa fæði, húsnæði og þjónust, sem hinir geta haft heima hjá sér, og verður það auðvitað dýrara, auk þess þurfa þeir oft og einatt að fá mann í staðinn sinn til þess starfa er þeir hafa á hendi heima fyrir, auk þess þurfa þeir er mikilvæg störf hafa á hendi mikið að kosta til símskeyta, eg veit fyrir mig að eg eyði að minsta kosti 1 kr. á dag að meðaltali í símskeyti og samtöl til þess að annast um stöðu þá sem eg hefi á Húsavík og þó get eg ekki rækt starfið nærri jafn vel og eins og eg væri heima. Reykvíkingarnir hins vegar geta alla jafnan gengt sínum venjulegu störfum jafnframt þingsetunni, og að minsta kosti sparast þeim útgjöldin við símskeyti og símtöl. En eins og eg hefi áður tekið fram, hefði eg ekkert haft á móti þótt dagpeningar allra þingmanna hefðu verið ákveðnir jafn háir. En nú er orðið svo áliðið þingtímans, að frumvarpið getur ekki náð fram að ganga ef farið er breyta því. Og vil eg því láta samþykkja það óbreytt, þar sem það hefir mikla kosti í för með sér, sérstaklega að það lækkar ferðakostnaðinn og sparar alt það álag og alla þá tortryggni sem sumir þm. hafa mætt út af reikningum sínum, álag og tortryggni, sem stundum hefir verið óverðskuldað. Eg skal t. d. geta þess að ferðakostnaður minn nú er 181 kr. og fékk eg þó fljóta ferð, og þykist eg þó gefa sanngjarna reikninga, enda fengið orð fyrir það, en eftir frumvarpinu, sem hér liggur fyrir yrði ferðakostnaðurinn úr S.-Þing. ekki nema 160 og sést á því að hann er að minsta kosti ekki of hátt settur, en þegar menn fá sæmileg daglaun þola þeir það líka betur, þó þeir fái ekki ferðakostnaðinn endurgoldinn alveg að fullu.