24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Benedikt Sveinsson:

Það verð eg að segja, að þetta frv. er sú mesta bráðasmíð sem eg hefi séð og ber það vitni um hvorttveggja í senn, auragirnd og kotungsskap úr hófi fram. Mér finst engin ástæða til að hækka kaup þingmanna, — nú í byrjun kjörtímabils og einkanlega sæmir slíkt illa þessu þingi, sem ekki hefir aðhafst annað svo teljandi sé en að leggja nýja stórskatta á þjóðina. Engin minsta ástæða er heldur til þess, að sumir þingmenn eigi að hafa hærri dagpeninga en aðrir, af því að þeir búa utan Reykjavíkur! Þetta er svo fjarri sanni sem verða má, því að þingmönnum úr Reykjavík mun þingmenskan að öllum jafnaði miklum raun kostnaðarsamari en öðrum. Ef þeir eru þingmenn fjarlægra héraða, þá þurfa þeir að verja miklum tíma og tilkostnaði til þess að tala við kjósendur sína, eins og háttv. 1. þm. Rang. (E. J ) benti á við 2. umr. Ferðalög þeirra eru varla ódýrari en ferðir utanbæjarþingmanna, en sá er munurinn, að þingmenn utan úr héruðum fá ríflegan ferðakostnað og dagpeninga á ferðum sínum, hinir ekkert.

Fylgjendur frumvarpsins þykjast vera að sýna sparnað með því að færa niður ferðakostnaðinn, en þeir vinna það vel upp, blessaðir, með hærri dagpeningum svo að þetta eru að eins látalæti. — En hálf-óviðkunnanlegt er það þó fyrir sömu mennina, sem áður hafa gefið mun hærri ferðakostnaðarreikninga, að kannast nú við það í lagasmíð þessari, að þeir hafi áður tekið óhóflega mikið fyrir ferðirnar og verið að féfletta landssjóð um skör fram.

Annars getur það verið nógu fróðlegt að bera saman ferðakostnaðinn 1909 og ferðakostnað þann, sem fylgismönnum frv. finst nú hæfilegur. Það vita allir menn, að nú hafa staðhættir ekki breyzt og jafnlangt er að ferðast um land vort nú, eins og það var árið 1909. Tökum til dæmis:

Nú á að vera hægt að ferðast úr Suður Þingeyjarsýslu fyrir 160 kr., en árið 1909 kostaði það 228 og 230 kr., eða 68—70 kr. ódýrara nú. (Pétur Jónsson: Það eru úrskurðaðir reikningar). Já, en er nokkuð styttra nú norður í Þingeyjarsýslu heldur en það var 1909? Það er gert ráð fyrir því að nú ferðist þingmaður úr Eyjafjarðarsýslu hingað fyrir 130 kr., en 1909 kostaði sama ferð 250 kr. eða 120 kr. meira. Frá Akureyri á ferð nú að kosta 80 kr. en 1909 kostaði hún 129 kr. eða 49 kr. meira. Ferð úr Húnavatnssýslu á nú að kosta 120 kr., en árið 1909 kostaði sama ferð 283 kr. eða 163 kr. meira. Snæfellsnessýslu þingmaður á nú að ferðast fyrir 73 kr. minna hingað en 1909, þá kostaði það 133 kr., en nú á það að kosta 60 kr. Frá „dönsku mömmu“ á ferð hingað nú að kosta 190 kr. en 1909 kostaði hún 309 kr. eða 119 kr. meira.

Og mér er sagt, að þetta árið muni ferðakostnaðurinn þaðan og þangað nema nær 600 krónum, svo að hann væri þá ofhátt reiknaður um 410 krónur samkvæmt þessu frumv.

Þá er gaman að þessum 20 krónum, sem það á að kosta, að komast á þing og af úr „Gullbringu- og Kjósarsýslu“, — hvort sem það er sunnan úr Grindavík eða hérna frá Görðum. Til hlið sjónar mætti hafa ferðakostnaðarreikninginn úr þessari sýslu 1909. Hann var var þrenns konar: Úr Hafnarfirði kostaði ekki neitt að komast hingað né héðan, úr Görðum 20 kr. og frá Útskálum 18,50. Nú er leiðin frá Görðum lögð til grundvallar. Þótt þingmaður eigi heima í Skildinganesi, þá á hann að fá sínar 20 kr. — Eftir sama mælikvarða ætti þingmaður búsettur norður á Langanesi að fá svo sem 10 þúsund krónur í ferðakostnað, miðað við vegalengd og fyrirhöfn. Svona er nú nákvæmnin og réttlætið í smáu sem stóru.

Ef eg nenti að fara frekar út í þessa sálma þá er lafhægt að sýna fram á það, að virðulegir þingmenn hafa hlotið að féfletta landssjóð miskunnarlaust áður með því að reikna sér alt of hátt farkaup heim til sín, ef þessi lögboðni ferðakostnaður væri nærri sanni.

Eg hefi annars auðvitað ekkert á móti því að þeir takmarki nú auragirnd sína með lögum, og því vil eg jafnframt leggja á móti því að þeir hækki fæðispeninga sina úr 6 kr. um leið og þeir virðast ætla að fara að ferðast sparlegar á landsins kostnað hér eftir en hingað til.