19.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

Prófun kjörbréfa

Guðjón Guðlaugsson:

Orsökin til þess að eg stend upp og ætla að leyfa mér að segja nokkur orð, er sú, að eg greip fram í fyrir háttv. þm. G. K. (J. P.) og neitaði því, að það væri orðinn fastur „praxis“ um land alt að tvíbrotnir seðlar væru teknir gildir. Jeg er á þeirri skoðun, að þeir sjeu víða ekki teknir gildir, þótt það sjáist ekki í skýrslum um kosningarnar. Jeg veit eitt dæmi þess, að slíkt hefur átt sjer stað. Það var í Strandasýslu 1908. Þar komu tveir margbrotnir seðlar. Við þingmannaefnin urðum sammála um að ónýta þá, og við skoðuðum þá ekki. Kjörstjórnin fer í þessu efni venjulega eftir því, sem þingmannaefnin hafa komið sjer saman um. Svo voru 4—5 seðlar aðrir, er ónýttir urðu, sumir sem var ekki hægt að sjá, hver ætti. Þá er kosningu var lokið, rjeði kjörstjórinn, sem nú er starfsmaður hjer við þingið, það af, að forvitnast um, hvor ætti seðlana. Það reyndist þá, að það þingmannsefnið, er kosningu náði, átti seðlana báða. Hann þurfti nú raunar ekki á þeim að halda, og hann fór ekki fram á það, að þeir yrðu teknir gildir, og þykir þeim, sem kosnir eru, þó altaf bezt að hafa sem flest atkvæði. Þetta hefur nú borið við í Strandasýslu og sjálfsagt víðar. Þingið getur ekki vitað, hvaða siðvenja drotnar út um landið í þessu efni. Það veit aðeins um, hvað margir seðlar eru gerðir ógildir. Hitt veit það ekki, af hvaða ástæðu þeir eru gerðir ógildir. Í Strandasýsln sýnist þessi ógilding seðlanna hafa haft mjög heilsusamlegar og heillaríkar afleiðingar. Við síðustu kosningar kom enginn seðill fleirbrotinn. Annar þessara tvíbrotnu seðla í Strandasýslu, átti listaskrifari í Árneshreppi, og fjekk eg að vita um það samdægurs, og bendir það á, að mörg brot á seðlum geta verið merki, er kollvarpa tilgangi laganna, — heimuglegheitunum. Það er í rauninni versti ósiður að tvíbrjóta seðlana. Það hefði átt að framfylgja þessu ákvæði laganna miklu stranglegar en gert hefur verið. Af því að það hefur ekki verið gjört — auðvitað ávalt vegna samþykkis þingmannaefna eða þeirra umbjóðanda — eigum við í þessum deilum nú. Við skulum sjá, hvernig fer við næstu kosningu í Vestur-Ísafjarðarsýslu, ef þingið tekur þessa kosning gilda, hvort þá verða 21 seðlar gerðir ógildir vegna þess að þeir eru fleirbrotnir.

Það er og álit mitt, ef þessi kosning verður gerð ógild, að þá fari þingið á háskalega braut í 3 aðalatriðum.

1. Þingið nemur ólöglega burt skírt og nauðsynlegt ákvæði úr lögum, en lögleiðir háskalega eyði í staðinn — í 35. gr. kosningarlaganna. —

2. Þingið hegnir fyrir vandvirkni og skyldurækni, en verðlaunar hroðvirkni og kæruleysi samfara ólöghlýðni.

3. Elur upp ósvífna undirskriftasmölun — ólöglega atkvæðagreiðslu eftir á —.

Jeg byrja á því síðasta, ef þingið tekur þessar áskoranir til greina um að ónýta kosninguna, þá hefur það þær afleiðingar í för með sjer, að það elur upp ósvífna undirskriftasmölun og kjósendur verða æstir til að kæra kosningar að ástæðulausu. Það er víst, að mál þetta hefur vestra verið sótt með frekju. Þó skal eg geta þess, að þingmannsefnið, sjera Kristinn Daníelsson, sem sagður er mesti sómamaður, muni ekkert um þetta vita nje vera við það riðinn, og hann má því ekki taka þetta til sín, og það get eg sagt fyrir mig, að jeg hefði fremur tekið kæruna til greina, ef hún aðeins hefði verið undirrituð af honum einum eða 2—3 góðum mönnnm með honum, heldur en öllum þessum fjölda, sem vegna frekju forkólfanna og ístöðuleysis undirskrifanda hafa ljeð nöfn sín undir það, sem þeir sjálfir ekki skildu. Slík undirskriftasmölun er hverju hjeraði til vansæmdar.

Þá er fyrsta atriðið, er eg vildi leyfa mjer að minnast á. Ef þingið ógildir þessa kosningu, þá hegnir það kjósendum fyrir vandvirkni og löghlýðni, en verðlaunar hroðvirkni, óreglu og ólöghlýðni. — Hvað það snertir, að þingmanninn, Matthías Ólafsson, er sæti átti í kjörstjórninni, hafi eitthvað grunað um, hvort þingmannsefnið ætti fleiri hinna margbrotnu seðla, þá er það áreiðanlegt, að hann gat ekkert grunað um það. En ef kosning hans verður gerð ógild af þinginu, verða þeir hreppar verðlaunaðir, er sýnt hafa hirðuleysi og óreglu af sjer við kosningarnar, eins og jeg sagði áðan. Ef til vill hafa þessir seðlar verið brotnir saman, af því að kjósendur í þeim hreppum, þar sem seðlarnir voru fleirbrotnir hafa viljað sýna, að þeir væru dyggir og trúir liðsmenn. Sitthvað hefur nú heyrzt á alþingi Íslendinga, en aldrei þau firn, að hegna ætti kjósendum fyrir vandvirkni og löghlýðni með því að gera kosning þeirra ógilda.

Þá kemur annað atriðið, sem eg vildi drepa á.

Með því að ógilda þessa kosning nemur alþingi úr gildi mikilsvert ákvæði í núgildandi kosningarlögum, 35. gr., þar sem sagt er ótvírætt, að seðlana skuli einbrjóta, og vel að merkja — nemur það úr gildi á ólöglegan hátt. Væri frumvarp samþykt af þinginu, sem næmi þetta ákvæði úr lögum, þá væri það lögleg meðferð, þó heimskuleg væri, en það að nema það úr gildi með því að troða á því og einskis virða en láta það þó standa óhreift, er ólögleg og ósæmileg meðferð af löggjafarþingi.

Við frambjóðendur í Strandasýslu 1908 getum hrósað okkur af því, að við — báðir jafnt — gjörðum lítið að því, að fá ógilta seðla hvor fyrir öðrum, þó eitthvert vansmíði væri á kross, en fleirbrotnu seðlana vorum við undir eins sammála um að ógilda, því við skoðuðum það lögbrot. Sje farið að gefa mönnum undir fótinn með að margbrjóta seðla, þá er ekki unt að sjá, hvar skal staðar numið í því efni. Brotin geta verið margvísleg og tilbreytingarnar nálega eins margar og á sauðfjármörkum. Það má brjóta upp á 1 horn, 2 horn, 3 horn og öll hornin, svo má einbrjóta, á eftir tvíbrjóta, þríbrjóta, fjórbrjóta, skakkbrjóta, hafa misjafnar álmur, búa til úr þeim umslög o. s. frv.

Menn sjá af þessu, að það er ekki lítilsvert atriði, að þessu ákvæði laganna sje hlýtt rækilega.

Jeg get ekki hælt mjer af því, að jeg sje sjerstakur löggjafi þessara laga. Jeg er þar að eins brot úr löggjafa. En jeg get þó sagt það, að jeg sat í nefnd þeirri, er fjallaði um þetta mál í efri deild. En vjer deildarnefndirnar vorum á því, að ekki dygði að talið væri úr hreppskössunum, eins og ætlazt var til í frumvarpinu, eins og það þá lá fyrir; litum svo á, að með því móti yrði alt of lítið úr heimulegheitunum. Og hef jeg þó stundum hálfiðrazt eftir að hafa verið upphafsmaður að því, að öllum seðlum væri steypt í eitt ílát og ruglað saman áður talið væri. Jeg hefði haft gaman af að vita, hvað mörg atkvæði jeg fengi úr hverjum hreppi. 1908 hafði einn hreppur í mínu kjördæmi brotið seðla sína öðruvísu, en þó löglega í alla staði — einbrotið — en seðlarnir voru lengri á annan veginn, og þessi hreppur hafði brotið þá langs, en hinir þvers.

Atkvæðagreiðsla þaðan reyndist nokkuð öðru vísi, en jeg bjóst við. Jeg taldi sjerstaklega atkvæði þessa hrepps og sá, að þar átti hinn frambjóðandinn 11 — jeg bjóst við 6 —. Og það get jeg sagt, að jeg þekki ekki þingmennina hjer í salnum betur en þessa 11. Þetta sannar það, að þó það reyndist erfitt, að merkja með broti seðil hvers einstaks manns, þá er svo einkar auðvelt að merkja seðla hvers hrepps; til þess fást yfrið nógar útafbreytingar, og afleiðingarnar verða gagnstæðar tilgangi laganna. Ef þingið ógildir þá kosning, sem hjer liggur fyrir til umræðu, þá hef jeg tilhneiging til að láta kjósendur mína margbrjóta seðlana og þannig auðkenna þá, að minsta kosti fyrir hvern hrepp.

Satt að segja skil jeg ekki í því, hvernig hjer sje að tefla um lagabrot, er fleirbrotnir seðlar voru ónýttir. Það er satt, að Matthías Ólafsson fjekk færri atkvæði en sjera Kristinn Daníelsson. En það er kjósendum hans sjálfum að kenna, að kosning hans er ógild og ólögleg. Hvort sem það stafar af vanþekking, vangá eða undirlögðu ráði, er það þeim að kenna eins fyrir því. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fer að lesa kosningarlögin. Hann, löglærður maðurinn, les þau eins og sagt er, að tiltekin persóna lesi biblíuna. Eftir það, að jeg hef hlustað á þessa rœðu hans, þyrði jeg ekki að trúa honum fyrir að flytja mál fyrir mig, nema ef hann ætti að flytja rangt mál eða verja lögbrot. Út af orðum hins háttv. sama þm. N.-Ísf. get jeg þess, að jeg held, að Matthías Ólafsson hafi ekkert grunað um það, hverir œttu þá seðla, er voru fleirbrotnir og ónýttir, og ræð jeg það af minni reynslu í þessu efni.

Háttv. þm. N.-Ísf. talaði eitthvað um blýant, hvort það væri ógildingarsök, ef kjósandi notaði sinn eiginn blýant til að gera strikið með. En kosningarathöfnin fer fram í luktum klefa, og enginn veit um það, hvaða blýant hefur verið notaður, ef það er blýant með líkum lit. Fæstir, sem hafa blekblýant á sjer, en það væri auðvitað brot á lögunum. Hitt vita menn aldrei um og aðgæta lauslega. Geta vel verið komnir til þingsins fleiri hundruð seðlar, krossaðir með vasablýöntum kjósanda. Sömuleiðis mintist hann á, hvort það ætti að varða ógilding, ef veikum manni væri hjálpað til að kjósa. En þetta fellur alt um koll, því að nú eru komin út lög, er heimila, að hjálpa megi lasburða mönnum við kosningar. Og þar sem háttv. þm. N.-Ísf. var að spyrja um, hvort það ætti að vera ógildingarsök, ef seðlunum væri kastað í atkvæðakassann á þann hátt, er hann tiltók, þá er þar til að svara, að í 38. og 39. gr. kosningarlaganna stendur ekkert um, hvaða tilburði menn eigi að hafa, er þeir fara með seðlana í seðlakassann, hvort hann á að skríða þangað eða hlaupa.

Í lok ræðu sinnar gerðist háttv. þm. N.-Ísf. mjög guðlegur og andlegur. Það er náttúrlega gott og fallegt, að menn prjediki og reyni að vekja góðar og guðlegar tilfinningar í hjörtum manna. En það er samt að hafa hausavíxl á hlutunum, ef það ætti að gera ógilda kosning 80 manna, er kusu sem lögmentaðir menn, en gilda kosning 20 manna, er kusu ranglega, hvort sem það hefur verið óviljandi eða af ásettu ráði. Og það, sem kjósendur hafa gert rangt í þessu efni, verða þeir að kenna sjálfum sjer en ekki öðrum. Með því að taka þessa kosningu gilda, ímynda jeg mjer, að sje girt fyrir, að margbrotnir seðlar komi oftar úr þessari sýslu og jafnvel hvergi.

Það hefur verið talað um að banna frambjóðendum að sitja í kjörstjórn, og að sjerstakur dómstóll ætti að úrskurða um lögmæti kosninga. Jeg er á sama máli um þau atriði bæði. En slíkt kemur ekki því máli við, sem er hjer til umræðu og úrslita.

Háttv. 2. þm. G.-K., talaði mikið um verklúnar hendur, að það mætti ekki ætlast til þess, að þær gætu alt af brotið seðlana, eins og lögin ákvæðu. En það er undarlegt, ef þreyttum mönnum er ljettara, að tvígera eitthvert verk, en gera það einu sinni, ef þeim er ljettara að brjóta seðilinn tvisvar en einu sinni, og að þessar verklúnu hendur geti gert viðunandi krossa, en geta þó ekki lagt gómana svo þjett að einbrotnum seðli, að ekki sjáist innan í hann.

Þá er mikið gert úr því, að yfirkjörstjórinn í Vestur-Ísafjarðarkjördæmi hafi verið mótfallinn því, að ógilda þá seðla, er ógiltir voru vegna brota. En það er hæpið að gera mikið úr því. Jeg var hringdur upp af Ísafirði í gær og sagt, að í Norður- Ísafjarðarsýslu hefðu tvíbrotnir seðlar verið lagðir til hliðar, meðan verið var að telja, en voru teknir gildir, er talningu var lokið, og það var orðið auðsætt, að úrslit kosninganna ultu ekki á gilding þeirra eða ógilding. Tveir menn eru nú staddir hjer í Reykjavík, sem geta vitnað, að jeg fer hjer með rjett mál. Sýslumaðurinn á Ísafirði getur því ekki hafa verið mjög mótfallinn því, að þeir væru gerðir ógildir.