06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Ráðherra (H. H.):

Jeg vildi aðeins koma fram með ofurlitla bendingu viðvíkjandi þingsályktunartill. þeirri, sem boðuð er í nefndarálitinu á þingskj. 114. Það er farið fram á það í 2. lið till., að stjórnin leggi fyrir alla sýslumenn landsins, að láta fram fara vandlega kláðaskoðun á öllu sauðfje í landinu í næstk. aprílmán. og senda stjórnarráðinu allar þar að lútandi skýrslur svo fljótt, að því vinnist tími til að rannsaka þær og byggja á þeim rökstuddar tillögur um útrýming fjárkláðans, sem stjórnin leggi fyrir alþingi 1913.

En fari þessi skoðun ekki fram, fyr en hjer segir, þá er ómögulegt, að skýrslurnar um þær verði komnar svo snemma til stjórnarinnar, að unt verði að framkvæma það, sem af stjórninni er heimtað, að byggja á þessum skýrslum stjórnarfrumvarp, sem lagt verði fyrir þingið 1. júlí 1913. Ráðherra siglir væntanlega með stjórnarfrumv. á konungsfund í apríllok eða snemma í maímánuði, og verða skýrslur sýslumanna þá naumast eða alls ekki komnar til stjórnarráðsins. —