24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Stgr. Jónsson frsm. meiri hl. nefnd.:

Eins og sjest af áliti nefndarinnar, þá bjóst meirihluti hennar ekki við, að mál þetta kæmi hjer til umræðu í dag, og ennfremur ber nefndarálitið það með sjer, að nefndin var klofin: tveir nefndarmanna vilja láta fella frumv., en einn þeirra er annarar skoðunar.

Að því er ástæður meirihlutans snertir, þá nægir mjer að vísa til ræðu minnar við 1. umr., en jeg vil þó vekja athygli á nokkrum atriðum hennar.

Hið fyrsta er það, að kaupbeiðandi er prestur í Skinnastaðaprestakalli, og hann getur ekki þjónað þessu víðlenda prestakalli, ef hann situr á Presthólum, og söfnuðirnir hafa ekki samþykt, að hann sitji á Presthólum, og jeg sýndi með tölum við 1. umr. málsins fram á það, hversu vegalengdum er háttað þar í prestakallinu, og að ókleyft má heita, að þjóna brauðinu fyrir prest, er situr á Presthólum.

Annað atriðið er það, að jeg lít svo á, að eftir gildandi lögum um þjóðjarðasölu og kirkjujarðasölu, sje ekki hægt, að selja sjera Haldóri Björnssyni jörðina Presthóla, með því að þar er ekki um neina framtíðarábúð að ræða; jörðin hlýtur strax að verða seld á leigu, en það væri beint brot á lögunum, og má öllum vera þetta atriði ljóst, því eftir að sameining brauðanna kemst á, þá er honum skylt, að sitja á Skinnastöðum, og hann hefur í brjefi til biskups skuldbundið sig til að flytja þangað.

Þá er þriðja atriðið. Mál þetta var rjettilega búið undir sýslunefnd N.-Þingeyjarsýslu, og hún lýsti því yfir, að hún áliti, að ekki mætti selja jörðina, og hún færði fyrir því fullkomin rök, sem ekki hafa verið hrakin enn, og als ekki að því fundið, því ekki get jeg talið það, þó nefnd í háttv. neðri deild, að alveg órannsökuðu máli, segi, að varla hafi verið ástæða til þess.

Loks vil jeg geta þess, hvernig mál þetta lítur út frá sjónarmiði hjeraðsins. Eftir þessu frumv. á sjera Halldór Björnsson að fá tvær jarðir til umráða og eignar í Presthólahreppi, því hjer er eiginlega um tvær sjálfstæðar jarðir að ræða, jarðirnar Presthóla og Katastaði, en auk þess hefur hann sem prestur í Skinnastaðaprestakalli þrjár jarðir til umráða í Axarfjarðarhreppi, nefnilega jarðirnar Skinnastaði, Akursel og Hróastaði, og hefur hann þá rjett til að búa á fimm jörðum, og hygg jeg, að hjer um mætti segja eitthvað líkt hinu gamla: „Latifundia perdidere Italiam“, eða með öðrum orðum, að landgnægðin (stórar lendur) eyðilögðu Ítali. Og þessar stóru landeignir geta ekki síður eyðilagt hag vorn en Ítalíu í fornöld. Auk þess hefur kaupbeiðandi 2.000 kr. laun úr landssjóði sem prestur í erfiðu brauði, og þessi mörgu bú gætu spilt fyrir embættisrekstri hans sem prestur í Skinnastaðaprestakalli.

Jeg vil því, að öllu þessu athuguðu, mæla með því, að frumv. verði felt strax.