24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Steingrímur Jónsson:

Háttv. þingm. Ísfjk. sagði, að þær ástæður, er sýslunefnd Norður Þingeyinga hefði haft til að vera á móti sölunni, væru nú fallnar burtu. En þetta er ekki rjett. Og að því, er til þingsins kemur, er sú ástæða að minsta kosti ekki fallin burtu, að sýslunefndin hefur enn ekki tjáð sig sölunni hlynta, svo að afstaða nefndarinnar gagnvart henni er óbreytt.

Ef það er rjett, sem háttv. þm. ísfjk. sagði um þetta efni, að ástæður sýslunefndarinnar til að andmæla sölunni, væru nú horfnar, efast jeg ekki um, að hún tæki það til greina og taki þá öðru vísi í málið, ef því verður aftur skotið til hennar, en það hefur ekki verið gert, og jeg tel rangt, að afgreiða málið frá þinginu án þess slíkt sje gert, eins og háttv. þm. N.-Múl. drap á. Ef þingið selur jörðina án þess, er meðferð málsins ekki formleg nje lögleg.

Það er satt, að lækninum hefur verið reist íbúðarhús á Kópaskeri. Fjórar hreppsnefndir rjeðust í að reisa þetta hús, sem kostaði um 5 þús. kr. En því fylgir engin grasnyt, og læknirinn fær naumast haldist lengi við þar nyrðra, nema hann hafi ábúðarjörð, svo að Kópasker er að líkindum ekki til frambúðar sem læknissetur. Það er að vísu svo, að læknirinn á að sitja á svæðinu milli Núps og Skinnastaða, en þar fæst engin jörð handa honum. Auk þess má og minna á það, að vel getur síðar meir orðið þörf á jörðum til annara opinberra nytja. Sigurðarstaðir hafa ekki fengizt keyptir til skólaseturs. Það er að vísu satt, að Presthólar eru á hreppsenda. En það mælir aftur með Presthólum sem skólasetri, að þeir eru í þjettbýlasta hluta sveitarinnar. Samt má ekki skilja orð mín svo, sem jeg haldi því fram, að skóli verði reistur þar í næstu framtíð. En jeg álít samt, að sýslunefndin hafi á rjettu að standa, að ekki sje rjett að selja jörðina, því að seinna er ekki ólíklegt, að hennar verði þörf til opinberra nytja, og það því fremur, sem jeg sje enga knýjandi ástæðu til að selja hana. Og jeg er því ekki samþykkur, að hún verði seld án samþykkis sýslunefndar.

H. þm. Ísfjk. talaði um, að kaupbeiðandi gæti haldið áfram að búa á Presthólum, en hinum háttv. þm. má þó vera kunnugt að honum hefur verið gert það að skilyrði af stjórnarráðinu, er honum var veitt Skinnastaðaprestakall með Presthólasókn, sameinaðri því, að hann sæti á Skinnastað, enda getur ekkert orðið úr sameining brauðanna með öðru móti. Jeg ætla að minna á, hvernig farið var með skólastjórann á Akureyri, er líkt stóð á fyrir honum og sjera Halldóri nú. Hann var ábúandi jarðinnar Möðruvalla, hafði gert þar miklar jarðabætur, en var bannað að vera þar, fjekk jörðina ekki keypta og varð að bregða stórbúi. Jeg sje ekki annað, en að sjera Halldór verði að hlýta sama. Jeg mundi ekki hafa verið þessu eins andvígur, ef hann hefði fengið leyfi safnaðanna til að sitja á Presthólum. Það, sem mjer gengur til að beita mjer svo fast gegn þessu máli, er það, að jeg tel það skyldu mína, að gæta hagsmuna safnaðanna í þessu prestakalli. Jeg vil varna því, að nokkur hætta sje á, að það geti orðið að venju, að sá prestur, er þjónar Skinnastaðarprestakalli, sitji á Presthólum.

Viðvíkjandi því, er háttv. þm. Ísfjk. sagði, að kaupbeiðandi hafi ekki þekt 4. gr. laga um sölu kirkjujarða, þá held jeg, að það sje ekki rjett, og margt bendir á, að honum hafi verið ákvæði hennar fullljós, er hann fyrst fór fram á sameininguna.

Þá talaði háttv. þingm. Ísfjk. um það, að kaupbeiðandi yrði að lóga öllum fjárstofni sínum, ef hann væri neyddur til að flytja af jörðinni nú og næði ekki eignarhaldi á henni. En ef þetta á að vera ein aðalástæðan til sölunnar, þykir mjer hún harla ljettvæg. Sjera Benedikt Kristjánsson frá Grenjaðarstað, sem verið hefur prestur á Skinnastað, hefur sagt mjer um þá jörð, að hún sje ein hin bezta bújörð, sem hann þekki. Hún mun að vísu ekki geta framfleytt eins mörgu fje og Presthólar. En þess er gæta, að kaupbeiðandi þarf ekki að hafa eins stórt bú á Skinnastað, og hann hafði á Presthólum. Á Presthólum hafði hann ekki nema 900 kr. í laun, en nú hefur hann um 2000 kr. Það má og benda á, að stórbú getur ekki vel samnýzt prestsembætti, allra sízt er prestakallið er jafn víðáttumikið og Skinnastaðaprestakall er nú. Og ef honum verður leyft slíkt, kemur það ekki vel heim við það, að skólastjóranum á Akureyri var bannað að hafa bú á Möðruvöllum.

Það er undarlegt, ef beita á því kappi í þessu máli, að reka það gegnum þingið nú í þinglok með endurteknum afbrigðum frá þingsköpunum, er ýmsar upplýsingar vantar um málið, og það einmitt er biskup er nú staddur nyrðra og er að visitera í þessum sóknum. Mjer finst það ætti að bíða eftir rökstuddri umsögn hans um málið. Jeg sje ekki, að máli þessu liggi svo á.

Jeg þarf ekki að fjölyrða meira um matið á jörðinni. Jeg skýrði frá því við 1. umr., hvernig því væri háttað, og jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka það. En jeg skal benda á það, að fyrra skiftið hefur jörðin víst verið metin til landsskuldar, en seinna skiftið til peningaverðs, og af þessu stafar munurinn.

Þar sem sagt er, að kaupbeiðandi hafi varið um 3.500 kr. til bóta á jörðinni, þá liggur engin skoðunargerð fyrir þinginu, ekkert plagg, er sannar þetta, ekkert nema sögusögn kaupbeiðanda sjálfs (Sigurður Stefánsson: virðingargerðin sannar það). Það sjest ekki ljóst, í hverju þessi mikla endurbót er fólgin. Það verður að fara fram virðing á þessum jarðabótum, áður en jörðin er seld.

Að eins með því skilyrði, að kaupbeiðandi láti af prestsskap, tel jeg sanngjarnt, að hann fái jörðina keypta. Það gæli og komið til mála, ef söfnuðurinn veitti samþykki sitt til, að hann sæti þar, en til þess kemur naumast, þar sem hörð dagleið er þaðan í nyrðri hluta Kelduhverfis, sem er allþjettbýl sveit og heyrir til þessu prestakalli. Það er að minni hyggju óhjákvæmileg nauðsyn, að presturinn sitji á Skinnastað.