27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

48. mál, árgjald af verslun

Jósef Björnsson:

Eins og flutningsm. tók fram, þá eru allir sammála um það, að ástæða er til þess að bæta fjárhag landssjóðsins. Æskilegt er og, að það yrði gert á þann hátt, að það gæti orðið til frambúðar. Flutningsm. ætlast til þess eftir því, sem mjer skildist, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, bæti hag landssjóðs til frambúðar. Með þetta fyrir augum, og þegar einnig hins er gætt, sem flutningsm. tók fram með skáldlegum orðum, að sanngjarnt væri, að „allir rjettu fram höndina“, allir bæru byrðina, og gætt væri fulls jafnaðar, þá finst mjer hjer jafnaðarins ekki gætt, eins og málið liggur hjer fyrir. Mjer finst hjer farin leið, sem ekki getur orðið til frambúðar. í stefnunni þeirri, að öll landsins börn eigi að leggja fram sinn skerf, finst mjer eigi lagður til grundvallar sá mælikvarði, sem til frambúðar getur orðið, og þjóðinni þóknanlegur. Að minni hyggju bólar hjer nokkuð mikið á þeirri stefnu, að færa auknu gjöldin yfir á sveitirnar. Og mjer virðist það svo mikið, að mikils sje í vant, að fulls jafnaðar sje gætt. Jeg ætla þó ekki að fara hjer út í einstök atriði. Að eins vil jeg benda á, að ætlazt er til, að af afurðum landsins sje hæst borgað af landbúnaðar afurðum. Því þá það? Því hærra af þeim en af sjávarafurðum? Það er þó ekki ljett neinum gjöldum af búnaðarafurðum, sem á þeim hvíla nú, en aftur á móti ætlazt til, að útflutningsgjald af sjávarafurðum verði afnumið með því að fella úr gildi lögin um útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl. frá 4. nóv. 1881. Þannig kemur gjaldaukinn því miklu þyngra niður á afurðum lands en sjávar, en það get jeg ekki sjeð að sje rjett. Mjer finst því, að á rjettlætisgrundvelli standi frv. ekki að þessu leyti, eins og það nú er, heldur sje það þvert á móti mjög ósanngjarnt.

Vitanlega ætti skatturinn að leggjast á hvorttveggja, bæði á afurði lands og sjávar.

En jeg get eigi betur sjeð, en að skattarnir yrðu margfaldari á afurðunum til sveita en sjávar, ef þetta frumv. yrði samþykt óbreytt.

Beinir skattar af landbúnaði, og þá líka landbúnaðarafurðum eru nú tveir: ábúðarskattur og lausafjárskattur. Við þessum sköttum á ekki að snerta, en bæta útflutningsgjaldi við, sem er hærra en útflutningsgjald sjávarafurða, 2% í stað l1/2%. Gjald af þessum afurðum á því framvegis að verða þrefaldur skattur.

Skattar þeir, er hvíla á sjávarafurðum, eru nú tveir eins og á landafurðum: lausafjártíund af skipum og útflutningsgjald af fiski, lýsi o. s. frv. Við þetta á að sitja, skattarnir verða hinir sömu en útflutningsgjaldið aðeins hækkað dálítið.

Nú er það skoðun mín, að skipin megi í þessu sambandi skoða sem fasteignir, sem jarðirnar, því þar er um framleiðslugrundvöll að ræða. Og þá fæ jeg eigi betur sjeð, en að segja megi með rökum, að lausafjárskattur af skipum og ábúðarskattur svari hvað til annars, og að lausafjárskattur af landafurðum og útflutningsgjald af sjávarafurðum samsvari hvað öðru. Þessu á nú að raska með nýjum og hærra skatti á landafurðirnar einar, og það tel jeg rangt. Jeg tel það í hæsta máta ósanngjarnt, að einn skattur sje umfram lagður á afurðir sveita, og að þannig verði hærri skattar á þeim en sjávarafurðum. Enn er eitt. Eins og sjávarútveginum nú er að verða varið, eru allar líkur til, að hann verði rekinn af stóreignamönnum í framtíðinni, og er þá óhyggilegt og lítil sanngirni í því, að ljett sje á þeim, en þyngt á smælingjunum, fátæklingum þjóðfjelagsins.

En vonandi er, að frumv. verði fyrir þeim lagfæringum, að þetta misrjetti hverfi í burtu. Jeg býst við, að frumv. taki, eins og háttv. flutnm. komst að orði, miklum og góðum breytingum hjer í deildinni, því ella á það ekki langt líf skilið.