27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

48. mál, árgjald af verslun

Jón Jónatansson:

Háttv. flutnm. benti allalvarlega á það, að ekki hlýddi að tala um einstök atriði frumv. við þessa umr.r og mun það rjett vera. En það er sannarlega heldur engin þörf á, að fara út í einstakar greinar frumv. til þess að benda á gallana. Þeir koma í ljós undir eins og litið er á frumv. í heild sinni, í aðalhugsuninni í frumv. Það, sem jeg sjerstaklega vildi minnast á, er þetta augljósa misrjetti milli atvinnuveganna, sem fram kemur í þessu frumv.

2. þm. Skagf. sýndi fram á það, að landbúnaðinum væri allmjög íþyngt með frumv. þessu, en mjer heyrðist á háttv. flutnm., að ekki væri hægt að segja þetta með neinum rjetti, fyr en farið hefði fram útreikningur á einstökum atriðum frumvarpsins.

Engu að síður þykist jeg fyrir mitt leyti sjá hreint og beint misrjetti koma fram í þessu frumv. og jeg sje ekki, að neina útreikninga þurfi við til þess, að það komi berlega í ljós.

Frumv. er ein af þessum mörgu tilraunum, sem fram eru komnar hjer á þingi til þess að bæta úr tekjuskorti landssjóðs. Og það er gott, að sem flestar uppástungur komi fram og verði athugaðar, og að bent sje á fleiri leiðir, því einhverja leiðina verður þó að fara að lokum, þótt torfær þyki.

En því get jeg ekki leynt, að mjer virðist leiðin, sem frumv. bendir á, óaðgengileg og með engu móti getur frumv. talizt annað en neyðarúrræði til bráðabirgða, en ekki sjest það í frumv., að því eigi að vera markaður aldur; því er ætlað að gilda til frambúðar. Því til þess, að gilda til bráðabirgða þangað til betri skipun yrði gerð á þessum málum, er frumv. alt of víðtækt, þar sem það fer fram á, að nema úr gildi lög um útflutningsgjald af fiski, lýsi o. fl.

Frumv. þetta virðist að ýmsu leyti fljótt hugsað og vanhugsað, og misrjettið milli atvinnuveganna kemur ljóst fram, en ýmislegt annað er þar ekki eins ljóst, sbr. 3. gr. Þar eru taldar upp ýmsar innfluttar vörutegundir, sem njóta eiga ívilnunar í aðflutningsgjaldi, og á af þeim vörum að greiða aðeins 1/2%, en þessi upptalning er mjög óljós og ónákvæm, vantar að telja þar margar vörutegundir, sem sýnilega ættu þó þar að teljast. En misrjettið milli alvinnuveganna, íþyngingin fyrir landbúnaðinn, kemur þó einnig í þessu berlega fram, þar sem margar vörutegundir, er landbúnaðurinn þarfnast, eru ekki taldar undir þennan lið, enda þótt augljóst sje, að þær ættu engu síður að falla undir lægra gjaldið, en aðrar vörur, sem þar eru taldar og sjávarútvegurinn þarf að nota.

Jeg þykist vita, að sumt af þessu sje komið inn af vangá og yrði væntanlega lagað í nefnd.

Um frumv. er ekki mikið að segja í heild sinni. Jeg tel að vísu gott, að það hefur komið fram, þótt það sje als ekki glæsilegt. En það þarf að taka miklum breytingum, ef það á að geta talizt aðgengilegt, jafnvel þó ekki væri nema til bráðabirgða; því eins og það nú liggur fyrir, verður það að teljast með öllu óaðgengilegt.