10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

71. mál, kolatollur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er sammála háttv. 2. kgk. þm. um það, að það sje hálfgert neyðarúrræði, að tolla kol, því kolin eru mesta nauðsynjavara, og jeg tel það í raun og veru rangt, að leggja toll á nauðsynjavöru, og þessvegna liggur mjer frumv. þetta í ljettu rúmi, þó jeg styðji það fyrst um sinn.

En þegar svo er ástatt, að skúffan er gersamlega tóm, þá verður að finna eitthvað til þess að láta í hana, og þá er ekki hægt að vera eins hörundssár með, hvar fjeð er tekið.

Milliþinganefnd sú, er skipuð var á síðasta þingi, til að íhuga fjármál landsins, lagði til, að veitt yrði einkaleyfi á kolasölu hjer á landi. Þetta frumv. var drepið af mikilli frekju og græðgi, og má svo heita, að hver þættist öðrum meiri, ef reis upp á móti því.

Kaupmannaráð Reykjavíkur og kaupmenn hjer reyndu þá með alskonar æsingi að spana menn á móti frumv., og efa jeg ekki, að marga muni sáriðra þess flans síðar. Þegar kaupmenn börðust á móti frumv., var stöðugt hrópað: „því ekki að tolla kolin“, og það komu ekki fram neinar raddir gegn því. Mín skoðun er sú, að það sje mikið verra en frumv. nefndarinnar, því þegar tollað er, eru peningarnir teknir úr vasa almennings, en eftir frumv. milliþinganefndarinnar fengu menn kolin fyrir sama eða svipað verð, en landssjóður fjekk þó stórfje.

Mjer finst því í þessu efni sjálfsagt, að verða við ósk kaupmannaráðs Reykjavíkur, og vil þeim mun heldur gera það, þar sem ýmsir kaupmenn hjer eru kunningjar mínir,og enginn hefur mótmælt tillögu þeirra, kolatollinum. Kaupmennirnir sögðust verja landið frá miklum voða með framkomu sinni, en það er vitanlega rangt, og hömpuðu í þess stað tollinum, er hjer hefur komið fram. Ef jeg hjeldi, að um alment tap af honum væri að ræða, þá væri jeg honum mótfallinn, en það tel jeg ekki, og þar sem gert er ráð fyrir, að lögin gildi aðeins til 1. janúar 1915, er engin ástæða til þess, að neinn flýi landið hans vegna, eins og háttv. 2. kgk. þm. vildi halda fram.

Það er vitanlega satt, sem háttv. 2 kgk. þm. tók fram, að 3.000 kr. er mikill skattur á botnvörpuskip, en hvar er þá þessi mikli hagnaður, sem mest er gumað af, af botnvörpuútgerðinni, ef hún er ekki fær um að greiða skatt þennan, sem eftir ársumsetning skipsins, 150.000 kr,. er eigi meira, en sem svarar 3 kr. af 150 kr. verzlun hjá bóndanum.

Annars er þessi „agitation“, sem síðari ár hefur verið hafin fyrir botnvörpuútgerðinni, gerð á kostnað landbúnaðarins, sem er aðalmáttarviður þjóðarinnar, en undir eins og minst er á, að leggja gjald á botnvörpuútgerðina, þá á það að vera hin mesta ófæra og tap eitt.

Jeg verð því með frumv. þessu,

1. af vinsemd við kaupmennina, er hafa haldið kolatolli fram.

2. af því þjóðin tapar engu á því og

3. af því, að lögin eiga að gilda aðeins stuttan tíma, eða til 1. janúar 1915.