03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Eg vona að þingmenn hafi áttað sig á skjölum þeim, sem frammi hafa legið síðan um daginn. Landið sem hér er um að ræða, er eins og innilokað milli Hafnarfjarðar og jarðanna þar í kring, en svo tekur við land Hvaleyrar. Að mestu er þetta hraun, einungis grasblettir á stöku stað, er gæti hugsast hagbeit fyrir hesta. Aðalgraslendi í Hafnarfirði er undanskilið og ætlað presti ef hann sezt þar að. Land þetta er notalegt fyrir Hafnarfjörð en gagnslítið fyrir Garðakirkju og rýrir jörðina sáralítið sem bújörð. Söluverðið er hæfilegt, 52.000 kr., og er það nálægt því 50% hærra verð en það rentar sig nú fyrir.

Eg sé ekki nauðsynlegt að taka annað fram, því að skjölin eru svo greinileg. Þar sem þessi sala fer fram milli opinberra stofnana, álít eg ástæðulaust að þingið fari að setja sig upp á móti frv. og vona að háttv. þingm. fallist á það eins og nefndin gerði í einu hljóði með þeim breytingum er eg gat um við síðustu umræðu.