03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Jóhannes Jóhannesson:

Eg vil að eins geta þess, að mér þykir það óviðkunnanleg aðferð, sem hér er höfð, að ganga fram hjá stjórnarráðinu í máli eins og þessu. Eg veit að þingið getur að vísu samþykt frv. án þess að bera málið undir stjórnarráðið. En eg fyrir mitt leyti get ekki verið með til að samþykkja frv. fyr en yfirlýsingar stjórnarráðsins eru fyrir hendi.

Landritari hefir tjáð mér og leyft mér að bera sig fyrir því, að engin skrifleg málaleitan í þessu máli hafi komið til stjórnarráðsins og sér sé heldur eigi kunnugt um, að það hafi verið borið á annan hátt undir nokkurn mann í stjórnarráðinu. Ekkert mat útnefndra manna hefir farið fram og er þó hér um mikla eign landssjóðs að ræða.