19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

37. mál, vörutollur

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Eg á enga brt. sjálfur við frv. En nokkrar brtill. hafa komið frá öðrum hv. þm.

Á þgskj. 309 eru brt. frá hv. 1. þm.

Skg. (Ó. Br.) og voru þær bornar undir mig og get eg á þær fallist að mestu leyti.

Það er viðkunnanlegra og aðgengilegra að flokka vörurnar. Þá er og lagt til að færa toll af kornvörum úr 25 aurum niður í 10 aura, það er í samræmi við frv. eins og það var í fyrra og líka samhljóða óskum Ed., eftir því sem formaður tollnefndarinnar þar hefir skýrt mér frá. Aðrar breytingar eru sáralitlar á þgskj. 309. Húsapappa er lagt til að fella burt af því, að vafasamt þykir, hvort innheimtumenn gætu greint hann frá öðrum pappa. Eg fellst líka á brt. um nafn frv., það er til bóta. Eg er þar á móti ekki samþykkur því að færa upp kolatoll úr kr. 1,00 upp í kr. 1,50. Hér er um framleiðsluvöru að ræða og fer illa á að tolla þær, einkanlega þar sem salt er líka tollað, enda hefir hv. þm. sett til vara 1 kr. eins og í frv.

Undir 4. lið hafa verið færðir tunnustafir, sem ekki voru áður tollskyldir eftir frv. Þetta er eftir samráði við mig. Sama er að segja um 5. lið Vafasamara er um þann lið brtill. er ræðir um að kippa burt tolli af prentuðum blöðum og bókum. Eg er þó heldur hlyntur henni vegna þess að tollheimtumönnum mun veita örðugt að vita um innflutning á þessum vörum, enda dregur tollurinn lítið.

Loks er brtill. á þgskj. 313, líka í samráði við mig, en flutningsmaður tók hana aftur, svo að eg þarf ekki að ræða um hana.

Þá er br.till. á þgskj. 307 frá 1. þm. Eyf. (St. St.) um að hækka kolatollinn úr 1 kr. upp í 1,50 kr., og er sama að segja um hana og hina tillöguna, sem í sömu átt fer og eg talaði um áðan. Síðari till. á þessu þgskj. er sama efnis og till. háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.), og er sjálfsagt að samþykkja hana. Fyrsta till. á þgskj. 310, að bæta við „skipsbrauði“ á eftir „kornvörum“ spillir að mínu áliti, því ekki er hægt fyrir tollheimtumann að aðgreina skipsbrauð og annað brauð í kössum.

Þá er næsta till. á sama þgskj. að jarðeplum sé slept úr matvöruflokknum, en þar er sá galli á, að eg finn hvergi að jarðeplum sé ætlað rúm annars staðar.

Þá er þriðja br.till. að bæta „gaddavír og hrátjöra“ á eftir „smíðajárni“. Gaddavír er þegar tekinn upp í till. háttv. þm. Skagf., (Ó. Br.) og er hann ekki erfiður viðureignar fyrir tollheimtumann, því hann er vanalega nefndur sérstöku nafni á manifestum. Af tjöru er lítið flutt hingað til landsins, svo að tiltölulega er þýðingarlítið, hvort hún er tekin með eða ekki, en þó getur verið örðugt fyrir tollheimtumann að vita hvort í tunnu er hrátjara eða t. d. asfalt.

Með fjórðu, sjöttu og sjöundu br.till. er farið fram á að slept sé undan gjaldi steinolíu, cement, kalki og salti. Eg er á móti þeirri till.; það verður lítið úr tekjunum af lögunum, ef mikið er tínt úr af vörum, og mætti lengi halda áfram ef byrjað er á því.

Í fimtu br.till. er farið fram á að lækka kolatollinn úr 1 kr. niður í 50 aura af smálestinni. Sú till verður aldrei samþykt; hér í deildinni hefir enginn hingað til kvartað yfir krónutolli, og Ed. vill hafa hann enn þá hærri. Það er því óþarfi að bera þá till. upp, en hitt er rétt, að verði samþyktur 1,50 kr. tollur á kolum, eins og br.till. á þgskj. 307 fer fram á, þá væri rétt að samþykkja 6. br.till. á þgskj. 310. Eg vil segja að eg er í vafa um hvort eg greiði mínu eigin frumvarpi atkvæði, ef kolatollurinn verður 1,50 kr., og hins vegar verður líka tollur á salti.

Þá er líka í 6. br.till. að 3 kr. tollur sé lagður á hver 50 kílógr. á vefnaðarvöru. Hún er því í samræmi við till. hv. þm. Skagf., (Ó.Br.) sem eg talaði um, og þó eg sé í hjarta mínu með henni, þá get eg ekki greitt atkvæði með henni, vegna þess hversu erfitt er að innheimta slíkan toll. Það er ekki hægt að leggja verulegan toll á vefnaðarvöru fram yfir aðrar vörur, án mjög aukins tollseftirlits.

Um 8. br.till. á þgskj. 310 er það að segja, að örðugt er að dæma um hvað eru listaverk, af því sem flutt er í kössum frá útlöndum. Sumar till. virðast þannig gerðar, að þær annars vegar eru óþarfar, en gera hins vegar frumvarpið óaðgengilegt vegna þess, að þær heimta aukið eftirlit. í 9. br.till. er farið fram á að eftir „heyi“ í 2. málsgr. 1. gr. komi: „maís, byggi, höfrum, melasse“. Þessar vörur eiga þá að vera undanþegnar tolli. En eg sé enga ástæðu til að undantaka þær ef gjald á kornvöru yfirleitt verði fært niður í 10 aura.

Þá er síðasta br.till. á þgskj. 310 að lögin skuli ekki ganga í gildi fyr en 1914. Eg er mótfallinn henni, því það er einmitt nú, sem við þurfum á tekjum að halda. Næsta þing sér fyrir fjárhagstímabilinu 1914—1915.