19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

37. mál, vörutollur

Framsögum. minni hlutans (Björn Kristjánsson):

Út af till. um að leggja gjald á tjöru á þskj. 3 11 skal eg benda á það, að þegar sagt er í daglegu máli tjara, þá er alt af átt við hrátjöru. Sé svo hér, þá er það dýr vara, og því ef til vill ekki ástæða til að taka hana undan; en sé hér átt við koltjöru o. s. frv., þá er eg ekki á móti till.

Eg get ekki fallist á till. um að setja girðingastólpa úr járni í sérstakan flokk; það yrði erfitt fyrir innheimtumann að greina þá frá almennum járnvörum. Þeir eru líka að leggjast niður og nokkurskonar sívalar trérenglur að koma í staðinn. Gaddavír vil eg aftur láta halda sér.

Eg er á móti 3. brtill. um að hækka gjald af salti upp í 1 kr. af ástæðum sem eg nefndi áðan. Mér finst yfirleitt brtill. frá þingm. úr sveitum miða að því að koma öllu gjaldinu yfir á sjávarútveginn, og kann eg ekki við það. Sá siður verður að leggjast niður að einn hreppur reyni að ýta gjöldunum af sér yfir á annan og einn landsfjórðungur á annan. í tollmálum verða þingmenn að skoða sig sem þingmenn alls landsins.