19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

37. mál, vörutollur

Ráðherrann (H. H.):

Eg ætla ekki að fara í orðakast við hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.), en það vil eg enn ryfja upp fyrir honum, fyrst hann þykist ekki muna það, að þetta frv. er alls ekki hið sama eins og farmgjaldsfrv. frá 1911, sem talað hefir verið um. Það er stórum öðruvísi. í frv. 1911 var nákvæm flokkaskifting, með ýtarlegum upptalningum, sem ekki er í þessu. Hinn hv. þm. las langan lestur, sem átti að sanna það, að þessi tollur væri hærri en factúrutollurinn. Því hefir enginn neitað, að það er hærra á nokkrum einstökum vörutegundum, en á það er ekki að líta, heldur hitt, hvort frv. taki meira gjald af mönnum alls. Hann játar að hingað til lands flytjist árlega vörur fyrir c. 10 milj. kr., að frádregnu flutningsgjaldi og kostnaði, og tekjurnar af því yrðu, eftir verðtollsfrv. um 300 þús. kr. En sú eina áætlun um farmtollinn, sem eg hefi séð, frá hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), gerir ráð fyrir 250 þús. kr. árstekjum af honum. Hér er þá 50 þús. kr. munur, þetta frv. leggur 50 þús. kr. lægra gjald á þjóðina á ári, en hitt, svo að allur þessi langi upplestur á óábyggilegum tölum sannar ekki neitt af því, sem þingmaðurinn vildi sanna með honum. Hér er að ræða um það hvort þetta frv. eða hitt leggi meiri álögur á þjóðina, en ekki um það, hvort krítin sé hærra tolluð eftir þessu frv. en hinu, eða aðrar einstakar vörutegundir, sem aðstoðarmaður hins hv. þm. í verzlunarsökum hefir skrifað upp fyrir hann. Svo held eg að eg þurfi ekki að svara honum frekar. En mig furðar á því, að jafnstiltur maður og gætinn og hv. 2. þm. Rang. (E. P.) skyldi tala eins og hann gerði. Hann var eitthvað að tala um að hér væri verið að neyða menn eða fleka með undirferli til að samþykkja þetta frv. Eg hefi ekki orðið var við neitt slíkt, eða hverjir ættu að vera að því? (Eggert Pálsson: Það er sannleikur. Lárus H. Bjarnason: Eg skal upplýsa það). Eg álít það gersamlega óforsvaranlagt, að kasta slíku fram hér í deildinni. (Eggert Pálsson: Sannleikurinn er aldrei óforsvaranlegur).

Þetta er lokleysan einber hjá þessum hv. þingmönnum, að eg ekki viðhafi harðari orð, og virðist þeim mál til komið að fara að hætta umræðum um þetta mál.