06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Bjarni Jónsson:

Það má þykja hlægilegt er menn eru að fjargviðrast út af þessari litlu upphæð, sem að eins er 1/4 úr launum eins manns.

Háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) miklaðist það mjög hver styrkur barnakennurum er ætlaður. Það er heldur til að láta sér vaxa í augum eða hitt heldur: 140 kr. á 6 mánuðum til hvers, hefir þó ef til vill fyrir að sjá konu og börnum, nema ætlast sé til, að það sé geld stétt þessi kennarastétt.

Það er vert að taka það skýrt fram, að þessari stétt er ætlað að gróðursetja fyrstu kvistina að skógum mennningar vorrar. Það er hreint og beint þjóðarskömm, hvernig farið hefir verið með þessa stétt, samanborið við aðrar stéttir.

Það var talað um, að þessir menn hefðu lausn frá störfum sínum um 6 mánaða tíma. En hver sér þeim fyrir vinnu? Eiga þeir að sjúga á sér fingurna eða hvað. Nú sem stendur hafa þeir minni laun en salernahreinsarar. Þegar talað var um laun stýrimannakennarans á þingum áður, var sagt, að hann gæti unnið svo mikið inn að sumrinu. En öll skip eru vitanlega sigld fyrir þann tíma, sem þeir eru lausir, um prófleyti. Og dýrt hefði reynzt að láta skipin bíða svo lengi. Þetta er eitt dæmi um þá fásinnu, sem menn telja ástæður, þegar um kjör þessarar stéttar er rætt.

Eg mun ekki fara hér um fleiri orðum nú, en vera má, að mér veitist þess tækifæri að drepa betur á þetta mál síðar.