29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Ráðherrann (H. H.):

Eg verð að taka í sama streng sem háttv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh,). Það er óvenjulega lágt árgjald, sem leyfishöfum er gert að greiða til landssjóðs, að eins 2°/0 af iðgjöldunum. Eg held, að óhætt væri að setja það nokkru hærra. Landið lánar leyfishöfum nafn sitt, til þess að þeir geti grætt mikið fé, sem þeir ella hefðu ekki tök á að vinna sér inn, og það ætti að metast ekki lítils vert.

Háttv. flutningsm. (L. H. B.) sagði, að lágmark missirisgjaldsins til landssjóðs væri 100 þús. kr. Það ekki alveg nákvæmt. Samkvæmt 1. gr. frv. er lágmark missirisgjaldsins 138 þús. fr., og nær það ekki 100 þús. kr., jafn vel þótt frankinn sé reiknaður 72 aura, sem er hátt. En að missirisgjaldið komist nokkurn tíma upp í 150 þús. kr., eins og mér virtist háttv. flutningsm. gera ráð fyrir, því er eg deigur að trúa. En þetta eru að eins smáatriði til athugunar.

Eg skil ekki, hvers vegna á að slá því föstu endilega, að 3 danskir menn séu í stjórninni og hví ekki megi selja í Danmörku né nýlendum Dana. Um það fær væntanleg nefnd líklega skýringar frá flutningsmönnum.

Einkaleyfistíminn er nokkuð langur, 40 ár. Að vísu er landsstjórninni heimilt, sé eg, að slíta einkaleyfinu eftir 15 ár, þó að eins ef ástæða þykir til að fyrirmuna, að íslenzkt lotterí sé lengur rekið. Eg get hugsað mér það, að ekki yrði það ofan á, þegar þar að kæmi, að slíta samningnum alveg, vegna teknanna, en ef til vill mundu menn vilja hækka árgjaldið. Orð greinarinnar þyrfti að rýma samkvæmt þessu, þannig að opin leið væri til þess að landið eftir 15 ár veitti leyfið öðrum, sem betur byði, eða notaði rétt sinn sjálft.

Eg kann ekki vel við orðalagið á 1. gr. g. 3. mgr. Þar stendur:

„Ráðherra Íslands hefir eftirlit með og ábyrgist, að trygging sú, sem hér um ræðir, sé til“.

Þessu þyrfti að breyta. Það er ekki til neins að láta ráðherra einan bera ábyrgð á tryggingarfénu. Ábyrgðina verður að leggja á landssjóð. Sennilega er það og meiningin, að ráðherra ábyrgist fyrir landssjóðsins hönd.

Eg hefi ekki ástæðu til þess, að fara nánara út í frv. nú; vona, að væntanleg nefnd taki þessar bendingar til greina.