05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

62. mál, skipting læknishéraðs

Flutn.m. (Skúli Thoroddsen):

Eg skal geta þess, hvað mál þetta snertir, að samskonar mál lá fyrir þinginu síðast 1911, og var því þá að því leyti vel tekið, að aðstoðarlækninum á Ísafirði var gert að skyldu, að sitja í Bolungarvík, gegn því að hann fengi að minsta kosti 600 kr. annarsstaðar frá.

Þingið vonaði, að þetta mundi nægja, en því miður, hefir sú reyndin á orðið, að aðstoðarlæknirinn á Ísafirði hefir reynst ófáanlegur, til þess, að setjast að í Bolungarvík, og hefir ákvæði núgildandi fjárlaga því orðið alveg þýðingarlaust, og því liggur nú fyrir þinginu ný beiðni frá Bolvíkingum, þar sem farið er fram á, að Hólshreppur, ásamt Bolungarvíkurverzlunarstað, sé gert að sérstöku læknishéraði.

Eg skal geta þess, að fastir íbúar þess læknishéraðs mundu verða um 1.100 manns, en auk þess er þess að gæta að frá því um nýár, og til vorvertíðarloka (þ. e. seint í júní) eru þar og menn úr ýmsum sýslum, er sjóróðra stunda, bæði úr Ísafjarðarkaupstað, úr ýmsum hreppum Norður-Ísafjarðar- og Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem og norðan úr Húnavatns- og jafn vel Skagafjarðarsýslu, auk þess er menn úr Barðastrandar-, Stranda- og Dalasýslum sækja þangað að mun.

Með því að verða við þessum tilmælum Bolvíkinga, þá er því í raun og veru eigi aðeins verið að fullnægja þörf einna 1.100 manna, þ. e. þeirra sem í hinu tilvonandi læknishéraði búa, heldur er og jafnframt verið að sinna þörf manna úr öllum þeim kjördæmum, sem eg nefndi, og vona eg þess vegna, að háttv. þm. úr þeim kjördæmum vilji styðja mál þetta.

Eg skal enn fremur geta þess, að því er til kostnaðarins kemur, að í áskorunarskjalinu til alþingis, sem liggur á lestrarsalnum, þá er talið, að ferð til að vitja læknis til Ísafjarðar — sé hann þá er til kemur fáanlegur — kosti að jafnaði 25 kr.; en nú kemur það þrásinnis fyrir, að ekki gefur á sjó, og þá er erfitt að ná til læknis, þar sem landferðin er mjög örðug, sérstaklega að vetrinum. Eg vona því, að háttv. deild taki málinu vel, og að því verði að lokinni umr. vísað til nefndarinnar, er skipuð hefir verið hér í deildinni, til þess að fjalla um samskonar málefni.

0983

Pétur Jónsson: Eg skal ekki tala langt mál, en mér þykir það undarlegt, að öll þessi mál um fjölgun læknahéraða, og þau eru orðin mörg, skuli hafa verið látin ganga gegn um 1. umr. án þess að menn athugi nokkuð hvað verið er að gera. Það getur orðið skilið svo, að þessi þögn sé samþykki, en svo hefir hún ekki verið fyrir mér og tæplega öðrum. Eg býst við að mönnum hafi sýnst bezt, að safna sem flestum þess konar málum í eina skúffu, og slátra svo öllu í einu, því að eg get ekki meint að nokkrum þm. detti í hug að fara að fjölga læknahéruðum um öll þessi, sem hér er farið fram á. Það getur verið að frv. séu mismunandi, meiri þörfin á einum stað en öðrum, en landlæknir hefir þó eigi álitið þörf fyrir frekari fjölgun að sinni en orðin er, og honum fanst að þau læknishéruð sem beðið var um 1909 væru umfram það sem heppilegt er. Eg segi þetta ekki nú af því, að eg vilji fyrir mitt leyti leggja neinn dóm á það, hvort minni ástæða sé til þess að stofna þetta læknishérað, en önnur sem um er beðið. Að eins vil eg benda á það, að ef allir fjórðungar landsins ættu að fá eins marga lækna að tiltölu og Vestfirðir fengju, ef þetta næði fram að ganga þá yrðu að vera 60—70 læknar á öllu landinu. Eg hefi heyrt lækna kvarta yfir því, að héruðin væru að verða óviðunanlega smá, svo að þeir hafi alt of lítið að gera, og þetta versnar eftir því sem þeim er meira fjölgað. — Eg segi þetta ekki af því, að eg vilji ekki að þetta frv. fari til nefndarinnar, eins og hin, heldur ætlast eg til að þau annað hvort fari ekki lengra, eða verði feld.