18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í C-deild Alþingistíðinda. (1011)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg er hræddur um, að það þýði ekki mikið að vera að halda langa ræðu — hygg að það muni lítið raska atkvæðum manna. Þeir munu vera búnir að ákveða þau fyrir fram. Þó getur það verið rétt, að gera athugasemdir og skýringar um einstaka breyt.till. Eg ímynda mér, að hafi ræður sumra hv. þingm. haft áhrif, án þess þó að skýra málin fyrir mönnum, þá hljóti þær að hafa haft villandi áhrif. Því að til þess er mælskan, að hún geti tekið hugi manna á vald sitt — og oft mikið meira, en málsins vegna væri æskilegt. Eg geri mér nú ekki miklar vonir um að mér takist slíkt, því eg er ekki mælskumaður. En þeim mun áhættuminna er að gefa skýringum mínum gaum og fara eftir þeim.

Eg skal fyrst geta þess, viðvíkjandi brtill. háttv. þingm. Dalam. um það, að Hvítárbakkaskólinn verði tekinn upp í hóp unglingaskólanna, að verði hún samþykt, þá hefir það þau áhrif, að þessi skóli fær ekki nema 1000 krónur árlega. Eg skal kannast við það, að í »teoriunni« væri ekkert á móti því, að hafa alla þessa skóla í einum flokki, en eins og fjárveitingunum til þessara skóla er nú hagað, þá verður því ekki að svo stöddu máli við komið. Og það er víst, að verði þessi brtill. samþykt, þá verður það til að eyðileggja þennan skóla.

Í Þessum skóla voru síðastliðið ár 44 nemendur. Það hygg eg að sé meira en gerist á unglingaskólunum alment, eða að minsta kosti meira en verið hefir á þeim unglingaskólum, sem komast af með 1000 kr. styrk eða þar innan við. Annað er það, að þar er búið að koma upp miklum byggingum til heimavistar fyrir nemendur skólana, svo og leikfimishúsi, og þessar byggingar skólans hafa kostað svo þúsundum skiftir, eg ímynda mér alt að 20,000 krónur. Þar að auki hefir þessi skóli reynst afaródýr eftir námstíma og nemendafjölda. Það er vitaskuld, að jafnódýr skóli eins og þessi er ekki svo fullkominn að ekkert megi út fá hann setja, en svo er um alla okkar skóla. Skólafyrirkomulagið er vitanlega gallað, og á það rót sína að rekja meðal annars til þess, að ekki hefir verið nægilegt fé fyrir hendi. Svo hygg eg að til þess þyrfti mikinn undirbúning, að geta komið þessum skólum og kaupstaðaskólunum undir sama hatt, og vil eg víkja því til stjórnarinnar og fræðslumálastjórans, hvort ekki mundi unt að undirbúa þetta til næsta fjárlagaþings. Eg vil ekki mælast til að í slíkt sé ráðist nú. (Bjarni Jónsson: Hvaða undirbúuing þarf?). Það þurfa að liggja fyrir þinginu tillögur, jafn-greinilegar eins og um styrkveitingar til barnaskóla, til þess að styrkur, sá sem veittur yrði, skiftist eðlilega og hlutfallalega niður, eftir því sem skólarnir eiga skilið.

Þá talaði sami háttv. þingm. mikið um vísindi og listir, og verð eg að segja, að ræða hans var mjög áheyrileg að mörgu leyti, því það játa eg fúslega, að þeirri þjóð er ekki vel farið í menningarlegu tilliti, sem ekkert þekkir til vísinda og lista. Og það er ekki svo að skilja, að nefndin hafi ekki viðurkent þetta, en henni hefir þótt það álitamál, hvað mikið skyldi veita til slíkra fyrirtækja. En af því að hann fór út í samanburð á fjárveitingum til vísinda og lista og fjárveitingum til atvinnumála og búnaðar, þá vil eg taka fram, í hvaða hlutfalli þessar fjárveitingar standa hvor til annarar. Eg vil taka til dæmis heimili í sveit, því að eg er því kunnugastur, hvað af því útheimtist til þess að geta sýnt á sér menningarbrag. Fyrsta skilyrðið til þess er það, að búskapurinn fari vel fram og beri sig efnalega. En til þess þarf að vera vel unnið, mönnum kend iðjusemi, það þarf að sjá um að skepnurnar geri gagn og að heyskapurinn sé rekinn með dugnaði og áhuga, og yfir höfuð að undirstaðan undir allri framfærslu á heimilinu sé sæmileg. Þetta verður þá fyrsta skilyrðið fyrir góðu heimili, Næsta skilyrðið er, að rekstur búskaparins sé bygður á staðgóðri þekkingu, og er það annað skilyrðið. Í þriðju röð kemur það svo fyrst til greina, sem fegrar heimilið. Ekki svo að skilja, að fátækt heimili hafi ekki skilyrði til að geta talist menningarheimili, en það verður þó jafnaðarlega neðar í röðinni. En þar sem minna er hugsað um búskapinn og mest hugsað um létt vinnubrögð, skrautleg húsakynni og skrautlegan klæðnað, þar lendir búskapurinn í skolum og basli, og ef stórt heimili ekki uppfyllir þessi undirstöðuskilyrði, sem eg nefndi, þá er þar draslarabúskapur, þá er þar ekki sönn menning, heldur tildurabragur á öllu. En alveg eins og um heimili í sveit verður þetta um landið í heild sinni. Eg vona, að menn verði mér sammála um það, að gæta verði hófs í því að hæna menn út á þá braut, sem dregur þá brott frá framleiðslustarfinu. Þá verður menning landsins tildur og líf þjóðarinnar basl.

Annað mál er það, að það er ekki nema gott, að sint sé um vísindi og listir, en það má ekki vera svo mikið, að allir verði hugfangnir af því einu. Það er sú stefna, sem nefndin vill vara við.

Hæstv. ráðherra mintist á till. nefndarinnar viðvíkjandi skáldastyrknum. Það er ekki gott að koma fram fyrir hönd heillar 7 manna nefndar í svona máli, því að vitanlega getur nefndarmenn greint á um einstök atriði. En eg skal leyfa mér að benda á þá skoðun nefndarinnar, sem kemur fram í áliti hennar, að ekki beri að skoða þessa svo kölluðu bitlinga sem árleg laun, heldur verði að skoða þá sem styrk til að vinna ákveðið verk eða verðlaun fyrir unnið verk. Eg ætla ekki að mótmæla því, að þessir menn þurfi að hafa árleg laun til að geta gefið sig við ritstörfum sínum, en eg álít það mjög óheppilegt, að Alþingi sé það veitingarvald, sem ræður menn til slíkra starfa, því að það eru dæmi til þess að mönnum hefir verið komið inn á fjárlögin af flokksfylgi, en ekki af því að menn hafi verið sannfærðir um að þeir væru Sjálfsagðir í þessháttar stöðu öllum öðrum fremur. Eg tek þetta fram, án þess að eg vilji á nokkurn hátt skerða heiður þeirra manna, sem nú Standa. á fjárlögunum. En til þess að hæfustu mennirnir geti lifað sem rithöfundar með opinberum styrk, verður að fá eitthvað annað veitingarvald en flokkana á Alþingi.

Eg get gengið inn á það. sem hæstv. ráðherra sagði, að rétt sé að veita þeim mönnum styrk, sem styrks eru verðir, en eg álít að Alþingi sé ekki heppilegur dómari til að dæma um slíkt. Okkur bændunum er borið það á brýn, að við lítum meira á smjörbúin og búnaðarfélögin, heldur en á vísindamennina og listamennina. Og það er, ekki nema eðlilegt að svo sé. En hvers vegna er þá verið að leggja undir okkar dóm, hvort þessi eða þessi vísindamaðurinn og listamaðurinn sé styrks verður?

Eg vildi nú skjóta fram annari hugsun frá sjálfum mér viðvíkjandi þessu. Eins og öllum er kunnugt, þá eru á hverju þingi veittar til vísinda og lista fjárveitingar bundnar við nafn einstakra manna, sem nema á hverju fjárhagstímabili upp undir 20 þúsund kr., og eru nú 22 þúsund kr. Þetta er eðlilegt, vegna þess að það eru ekki til neinir sjóðir, sem slíkir menn geti notið styrks úr, og verður því landssjóður að gera það lítið, sem gert er í þessu efni. Menn greinir einatt á um, hverjum skuli veita styrk og hve mikið. Mér virðist heppilegast, að veita þennan styrk í einu lagi, og ýmsir fleiri eru mér samdóma um það. En má nú ekki alveg eins setja sem undirstöðu til þessara fjárveitinga eitthvað af Viðlagasjóði, eða með öðrum orðum stofna sjóð fyrir vísindi og listir,? Fyrir þennan sjóð sé svo samin stofnskrá og ákveðið, hverjir skyldu stjórna honum og hvernig verja styrkveitingum úr honum.

Það gæti farið svo, að þessi sóður yrði styrktur með áheitum og gjöfum frá, útlendum og innlendum mönnum. Þú væri hægt að gefa út reglur um að vísindamenn og listamenn fengju árlegan styrk úr þessum sjóði. Þetta vildi eg að stjórnin tæki að sér að undirbúa undir næsta fjárlagaþing. Fjárhagslega þýðingu hefir þetta ekki til eða frá, því að eg geri ráð fyrir að það yrði svipað, sem gengi til þessara manna með þessu móti sem hinu, en við slyppum við kostnaðinn af því að rífast um þetta hér í þinginu og óþægindin, sem af því geta hlotist, að einstakir menn séu dregnir inn í umræðurnar.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E. ) mælti með tillögu sinni um að fella niður styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar. En hann gerði það naumast nema að nafninu til; því að hann mælti svo mikið með þessum Vísindamanni, að það voru fullkomin mótmæli móti hana eigin tillögu og nóg til þess að mæla með því að þessi fjárveiting nái fram að ganga eins og hún stendur í frumvarpi stjórnarinnar.

Þá mintist einn háttv. þm. á kaupstaðaskólana og mælti með að þeir fengju að halda sínum rétti. Get eg að miklu leyti verið honum sammála, en þó var eitt atriði í ræðu hana, sem eg get ekki undirskrifað; og víst ekki fjárlaganefndin heldur, og það var þegar hann var að benda á, að þessa skóla mætti telja nokkurs konar fjórðungaskóla. Það var ekki ætlun nefndarinnar, þegar hún veitti þennan styrk, að skólarnir yrðu gerðir að fjórðungaskólum, í líkingu við Akureyrárskólann. Það er aðgætandi, að til þess að þessir skólar gætu heitið Vestfirðingafjórðungsskóli og Austfirðingafjórðungsskóli, þá þyrftu þeir að vera reglulegir realskólar. En eg hefi litið svo á, að þessir skólar væru öðrum sams konar skólum frábrugðnir að því einu, að þeir eru dálítið stærri og þurfa þar af leiðandi meira en alment gerist. (Bjarni Jónsson: Fer það eftir stærð skólanna?). Já, það fer dálítið eftir stærð, en vitanlega líka eftir öðrum kringumstæðum.

Hæstv. ráðherra mintist á spjaldskrárstyrkinn. Eg skal taka það fram, að mér hefir verið sagt, að ekki væri völ á manni, að Jóni Ólafssyni frágengnum, sem gæti haft þetta starf á hendi. En ef það vitnast, að þetta sé misskilningur, þá verður nefndin að taka það til íhugunar til 3. umræðu, hvort setja beri þennan spjaldskrárstyrk inn aftur.

Það er sjálfsagt margt enn þá, sem ástæða er til að svara, en menn hafa ekki óskað frekari akýringar á nefndartillögunum, og læt eg því staðar numið að sinni.