18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í C-deild Alþingistíðinda. (1019)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Mer finst engin sérleg ástæða fyrir nefndina til að taka þessar umræður um skáldastyrkinn og ýmislegt annað sem vott um óánægju með tillögur hennar. Flestir hafa talað um það, að skáldin mættu ekki missa þann styrk, sem þau hafa nú, og nefndin hefir lagt til einungis um 800 kr. lækkun alls í þessum styrkveitingum. Ég hefi látið í ljósi skoðun mína á þessu málefni og nefndarinnar sömuleiðis. Hefi eg þar engu við að bæta.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) mintist á styrk til þeirra Helga Pjeturss og Helga Jónssonar. Viðvíkjandi Helga Pjeturss leit nefndin svo á, að ekki bæri að veita honum laun, þar eð hann á við heilsubrest að búa, svo hann er eigi fær um að vinna, að starfi sínu, en vildi þó ekki svifta hann styrk til framfæris sér, í von um að hann næði heilsu aftur: Nefndin áleit samt ekki rétt að taka hann upp í 18. gr. fjárlaganna, þar standa þeir, sem hættir eru að starfa og komnir á eftirlaun.

Viðvíkjandi Helga Jónssyni áleit nefndin, að hvort sem honum væri veittar 1200 kr. eða 1500, þá væri hvorug upphæðin nægileg til þess að hann geti eingöngu gefið sig við sérfræðigrein sinni. Til þess þyrfti styrkurinn að vera helmingi hærri. En honum ætti að vera svo mikill styrkur að 1200 kr., að hann auk annarar vinnu gæti stundað fræðigrein sína á sumrum. Þorvaldi Thoroddsen voru veittar 1000 kr. á ári til jarðfræðisrannsókna, og vita allir, hvílíku starfi hann hefir afkastað fyrir þá upphæð.

Á styrkinn til Sigurðar Guðmundssonar mun eg minnast lítið eitt síðar. Þá ætla eg að minnast á það, sem hæstv. ráðherra sagði um styrkinn til Guðmundar Finnbogasonar. Nefndin leit svo á, að ekki væri sérstök ástæða til að veita honum styrk til ritstarfa, en leggur til að laun hans við landsbókasafnið verði hækkuð um 500 kr. á ári. Það gerir hún af því hún álítur manninn mjög vel hæfan til að gegna þessari stöðu, en ekki af því að hann þurfi að verja svo miklum tíma dagsins til bókasafnsins. (Jón Jónsson: 6 stundum á dag). Ber því að skoða þessa persónulegu launaviðbót sem viðurkenning á hæfileikum hans, en nefndin ætlaðist ekki til að hann þess vegna yrði skuldbundinn til ritstarfa. Það er því misskilningur hjá hæstv. ráðherra, er hann skildi launaviðbótina svo, að maðurinn ætti að vera skyldur til ritstarfa fyrir hana.

Það voru vonbrigði fyrir mig, þegar hæstv. ráðherra tók svo illa í hugsun mína um að mynda sjóð til vísinda og lista. Eg hafði gert mér von um að hann tæki vel í þetta mál og vildi undirbúa það undir næsta þing. Þótti mér hann satt að segja gera helzt til lítið úr mér, þegar hann sagði að þetta hefði enga fjárhagslega þýðingu. Hafði eg tekið það fram sjáifur áður. Verð eg að halda því fast fram, að þingið sé eigi vel fallið til að úrskurða, hverir séu hæfir til að fá styrki. Held eg að auðvelt væri að koma því svo fyrir, ef sjóðurinn væri til, að fyrir úthlutunum úr honum stæðu menn, sem væru færir um að dæma hlutdrægnislaust hverjir væru hæfir. Að minsta kosti ætti að vera hægt að losa veitingarnar við pólitíska hlutdrægni. En reynslan hefir sýnt, að hér á þinginu er það ómögulegt.

Hæstv. ráðherra sagði, að í útlöndum væri siður að veita slíka styrki á fjárlögunum eða með sérstökum lögum. Má vel vera að það sé eitthvað til í því. En mér er kunnugt um, að fyrst þegar tillaga var borin fram í Stórþinginu í Noregi um að veita skáldinu Alex. Kielland styrk, var hún feld sökum pólitískrar hlutdrægni. Eg sagði, að ef stofnaður væri sjóður, mætti búa svo um hnútana, að eigi kæmist pólitískur flokkadráttur að við úthlutunina. Ef það er ekki hægt á þennan hátt; þá er ekki með nokkru móti hægt að losa mál vor við pólitíska flokkadrætti. Skipa mætti nefnd mætti nefnd manna til að úthtuta styrknum. Það ætti að vera völ á nægum mönnum í hana, t.d. mentaskólakennurum, háskólakennurum, stjórn bókmentafélagsins o. s. frv. Eg ætla svo ekki að tefja umræðurnar meira með þessu máli. En út af þessu vil eg minnast á það sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði um. styrk til Sigurðar Guðmundssonar, eða hverflyndi það, sem lýsir sér þar hjá þinginu, ei till. er samþykt. En það er ekki sama fjárlaganefndin nú og í hittiðfyrra. Hún er samsett af öðrum mönnum nú. Slík ósamkvæmni er því ekki óeðlileg þegar um slíka smámuni er að ræða.

Í sambandi við þetta vil eg minnast á styrkveitinguna til Boga Melsteðs til þess að halda áfram að gefa út Íslendingasögu sina. Það var líka ósamkvæmni hjá þinginu, að taka af honum styrkinn eftir að hann um nokkurt skeið hafði verið styrktur til að búa hann undir prentun, og enn um nokkurt skeið til að gefa söguna út. Þetta hverflyndi vildi nefndin nú leiðrétta. Hvaða líkur eru nú til, að Sigurður sleppi nú betur við eftirtölur og hverflyndi eftirleiðis en Bogi? Að minsta kosti vill nefndin ekki. draga hann út á sömu brautina og Boga, og leggur því til að fella styrkinn.

Það sem háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sagði, var þannig lagað,. að eg get ekki svarað því. Hann var ekki að álasa nefndinni fyrir tillöguna um að veita 20,000 kr. styrk til viðgerðar kirkjunnar, heldur spurði, hvort ekki væri til þess ætlast, að söfnuðurinn taki við kirkjunni. Stjórnarráðið ætti að geta svarað því. En ég býst við að ef söfnuðurinn fengist til að taka við kirkjunni, vildi hann að hún yrði stækkuð áður, því hún er of lítil nú. Spurningin yrði þá, hvort landssjóður ætti heldur að byggja nýja kirkju eða viðbót við þá gömlu, eða láti sitja við að gera við kirkjuna nú og hafa hana áfram. Annars liggur þetta mál ekki fyrir, heldur er verið að ræða um óhjákvæmilega viðgerð á kirkjunni. Það liggur fyrir bréf frá Rögnvaldi Ólafssyni, þar sem hann segir, að kirkjan þurfi bráðrar aðgerðar við, gæti jafnvel verið hættulegt fyrir söfnuðinn að vera í kirkjunni, ef landskjálfta bæri að höndum. Þar að auki þurfi að setja á hana tvær útgöngudyr, svo hægra sé um útgöngu, því að dyrnar, sem nú eru á henni, eru svo þöngar að hætt væri við meiðslum og manntjóni ef eldsvoða bæri að höndum. Hefi eg svo ekkj ástæðu til að segja meira að sinni; man eg ekki til að neinu sé ósvarað.