20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í C-deild Alþingistíðinda. (1062)

108. mál, strandferðir

Framsögumaður Valtýr Guðmundsson:

Nokkrir þm. hafa haldið því fram, að nefndin hafi ekki gert neitt til að koma Eimskipafélaginu á fót. Þeir segja, að hún hafi einungis hugsað um, að koma strandferðunum á það. Þetta er, vægast sagt, ekki rétt, því að nefndin hefir einmitt borið það fyrir brjósti, að félagið gæti komist á fót, en hún hefir jafnframt reynt að koma með tillögur um, að strandferðirnar kæmust í viðunanlegt horf.

Nefndin hefir lagt til, að landssjóður taki 400 þús. kr. hluti í félaginu. Þetta er ekki gert að öllu leyti vegna strandferðanna, því að það væri of mikið. Ef þingmenn vilja nú líta á nefndarálitið, þá sjá þeir, að þar er áætlað, að ef út í landssjóðsútgerð væri lagt, þá mætti fá 160 þús. kr. að láni, en 250 þús. kr. fengjust með því að setja skipin að veði. Eimskipafélagið gæti því farið eins að og þá er auðsætt að ríflega er tekið til að áætla 300 þús. kr. til strandferða. Nefndin leggur líka til að félaginu séu ætlaðar 100 þús. kr. til þess að koma á fót millilandaferðum. Það er því fyllilega uppfylt beiðnin um það fé, sem félagið fór fram á. Auk þess á félagið að fá 40 þús. kr. á ári til þess að halda millilandaferðunum við. Félagið íslenzka fær því sama styrk sem það »sameinaða« hefir nú, það . fær 60 þús. kr. úr landssjóði og 40 þús. kr. úr ríkissjóði. Ef að »sameinaða« getur haldið ferðunum uppi án þess að skaðast á þeim, þá ætti »Eimskipafélagið« líka að geta það. Eg trúi því heldur ekki, að »sameinaða« héldi áfram með ferðirnar, ef það græddi ekki á þeim. Það gerir það áreiðanlega ekki að gamni sínu.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði ekki rétt, er hann sagði, að strandbátunum hefðu verið reiknaðar tekjur af vörum með millilandaskipunum. Eg vil benda háttv. þingmanni á bréfið frá Þórarni Tulinius, bls. 8. . .

Eg get ekki séð neina ástæðu til að rengja það sem þar stendur. Háttv. sami þingmaður vitnaði í skýrslu hr. Hendriksens. Eg vil ekki byggja eins á henni eins og Tuliniusar, því að það er víða auðsýnilega farið þar með rangt mál. Þar er til dæmis reiknaður kostnaður við strandferðirnar alt árið. Það er auðvitað, að fyrninguna á ekki að reikna nema fyrir þann hluta ársins, sem skipin sigla.

Líka kostuðu skipin öll ekki nema 37.5 þús. í stað 500 þús., sem þar er reiknað. Það er því auðsýnilegt, að skýslan er röng, svo að ekki er hægt á henni að. byggja.

Eg er fyllilega samþykkur háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um það, að hvernig sem fer, þá lendir skaðinn jafnan á oss. Það þarf enginn að hugsa sér það, að nokkurt útlent félag, hvorki Sameinaða gufuskipafélagið né annað, taki að sér strandferðirnar sér til skaða. Um það get eg verið samþykkur hæstv. ráðherra, að strandferðirnar beri sig aldrei með því laginu, að skipin séu látin elta upp hvern vog og vik. En hvernig stendur á því? Það er svo til komið, að þingið hefir verið að káka við áætlanir og hver þingmaður þá teygt sinn skika. Við þetta hefði þingið aldrei átt að eiga, heldur stjórnin átt að hafa það með höndum. En stjórnin hefir jafnan gert sér alt of lítið far um undirbúning þessa máls, aldrei komið með ákveðnar tillögur, heldur látið þingið algerlega skipa þessu máli, og því hefir alt farið í handaskolum. Þessu þarf að breyta og getur það haft áhrif á, hvort tap eða gróði. verði að strandferðunum. Eg vona það, að ráðunautur, sá sem ætlast er til að stjórnin taki sér, safni svo upplýsingum, að hægt verði að kippa málinu í haganlegra horf en áður.

Hæstv. ráðherra sagði, að vér þyrftum engin ný lög um þetta efni; út af því vil eg benda honum á, að lögin um eimskipsútgerð landssjóðs giltu að eins um millilandaferðir. Hæstv. ráðherra sagði; að vér hefðum aldrei viljað nota þau lög, vegna þess að vér hefðum ekki treyst oss til að bera skellinn. En sú ástæða er ekki rétt; vér höfum ekki notað þau af því, að vér höfum ekki átt völ á neinum manni til þess að veita útgerðinni forstöðu. Og vitanlegt er það, að tapið lendir ætíð á oss, því að þegar in útlendu félög tapa, heimta þau landssjóðstillagið hækkað.

Háttv. þm. Ak. (M. gr.) hélt því fram, að alt af mundi verða tap að strandferðunum. Það er satt, svo lengi sem tekjur og útgjöld standast eigi á án tillags úr landssjóði, en það tap verðum vér að bera.

Sami hv. þingmaður sagði, að nefndin hefði verið of bjartsýn í áætlun sinni um tekjur og útgjöld. Þar hefir þó nefndin aðallega bygt á reynslunni. Eg vil benda á, að útgjaldaáætlun nefndarinnar er talsvert hærri en hr. Tuliniusar, og einkanlega vil eg þó benda á, hve henni ber vel heim við útgjalda áætlun bráðabirgðastjórnar ins fyrirhugaða íslenzka Eimskipafélags. Áætlun þess félags er í fyrstu samin af fagmönnum hér heima og síðan prófuð í Þýzkalandi og viðar. Þegar þessar áætlanir eru bornar saman, eru þær að kalla eins. Skip ins fyrirhugaða ísl. Eimskipafél. verða stærri en strandferðaskipin, eyða meiri kolum og ganga auk þess alt árið. Eftir áætlun nefndarinnar er inn árlegi rekstrarkostnaður 61186 kr., en eftir áætlun ina fyrirhugaða eimskipafélaga 132 þúsund krónur. Ef þeirri upphæð er deilt með 2, er útkoman 66 þúsund kr., og munar þá ekki miklu um. En áætlun Eimskipafél. er margprófuð.

Sami háttv. þingmaður og háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) skutu því til nefndarinnar að íhuga, hvort oss mundi ekki nægja eitt strandferðaskip í sambandi við flóabáta. Nefndin hefir athugað þetta og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að komast af með færri en 2 strandferðaskip og auk þess flóabáta svo kallaða. Þessir háttv. þingm. halda, að komist verði af með 6 flóabáta í sambandi við eitt strandferðaskip. Eg vil benda á, að bátarnir eru nú 6 og vili nefndin fjölga þeim upp í 9, þannig að 1 gangi um Fagaflóa, 2 um Breiðafjörð, 2 um Ísafjarðardjúp og Húnaflóa, 1 um Eyjafjörð, Skagafjörð og Þingeyjarsýslu, 1 milli Vestmanneyja og Víkur, 1 milli Vestmanneyja Rangársands og Stokkseyrar, og loks 1 um Austur-Skaftafellsaýslu. Nú ríður á að fá allar þessar ferðir og báta í eitt kerfi, svo að þær komi að gagni. Þessu er ókleift að skipa nú. Það verður að bíða tillagna frá stjórninni, eftir nákvæma rannsókn; þar með ætti og að rannsaka, hverir vera skuli viðkomustaðir skipanna.

Nefndin hefir fengið upplýsingar um það að á sumum stöðum, sem skipin koma ekki á, sé miklu meira flutningsmagn og því meiri nauðsyn að skipin komi á heldur en auma staði, sem eru áætlunarstaðir, svo er t. d. um Suðureyri í Súgandafirði o. fl. Þetta hefir einn maður í nefndinni tekið að sér að rannsaka eftir landhagsskýrslunum. En það er svo margt fleira, sem rannsaka þarf í sambandi við þetta mál, og verður stjórnin að gera það.

Eg er samþykkur háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), að bezt sé talið að geyma 3. umr. þessa máls, þangað til fjárlögin eru á enda kljáð.