20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í C-deild Alþingistíðinda. (1064)

108. mál, strandferðir

Pétur Jónsson:

Hæstv. ráðherra tók það fram, að heimildarlög um, að landssjóður tæki að sér samgöngur á sjó væri ekki ný. Það er satt, enda er það ekki vert, að fara að hnotbitast um frægðina fyrir þá hugmynd. En eg vil taka það fram, að það er nýtt, að landið taki fult vald á strandferðunum ásamt millilandaferðum og skipi þeim í fast kerfi. Svo virðist sem forkólfar ina fyrirhugaða íslenzka Eimakipafélags eigi upptökin að slíkri hugmynd, og hún hafi verið gripin á lofti um land alt, og það er víst, að þá hugmynd hafa menn miðað við, meira en svo kallaðan prospectus félagsins, þegar þeir hafa verið að reyta af sér 25 kr. og 50 kr. hluti til félagsins. Þetta vil eg sagt hafa til að festa þá skoðun, að það er þessi hugmynd, þessi stórhugur, sem vakin er til lífsins.

Það hefir verið minst á, að álitamál væri, hvort strandferðaskipin skyldu vera tvö, eða að eins eitt í sambandi við smábáta. Eg álít nú, að þótt samgöngumálanefndin sé á þeirri skoðun, að vér komumst ekki af með minna en tvö strandferðaskip, og þótt svo standi í frumvarpinu, að skipin séu tvö, ekki lakari en t. d. »Austri« og »Vestri«, þá þarf þetta ekki að binda til skaða hendur Eimskipafél. Íslands, ef það tekur að sér strandferðirnar. Eg býst tæplega við, að horfið verði frá því að hafa slík strandferðaskip tvö. En þetta þarf ekki að vera því til fyrirstöðu, þó Eimskipafélagið komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegast sé að fjölga smábátunum, því þá má láta þessi atærri strandferðaskip taka að sér millilandaferðir jafnframt. Eg sé ekkert á móti þessu, enda hefir það fyrirkomulag verið haft um eitt fjárhagatímabil, og hefir einn af helztu kafteinum ins Sameinaða sagt mér, að það hafi reynst miklu hagkvæmara fyrir útgerðina. Þetta atriði þarf auðvitað rannsóknar við eins og auðvitað alt, sem þessu máli viðvíkur, hvort sem stjórnin hefir framkvæmdirnar á hendi eða Eimskipafél. Íslands.