20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í C-deild Alþingistíðinda. (1091)

64. mál, friðun æðarfugla

Tryggvi Bjarnason:

Mér finst ekki vert að láta þetta frumvarp taka eins langan tíma hér og í Ed. og skal eg ekki lengja umræðurnar um það mikið. En eg skal geta þess, að eg get með engu móti fallist á að fara að herða á lögunum um friðun æðarfugla. Þykir mér alveg óhæft ákvæðið í frumvarpinu um, að ekki megi láta egg af hendi til annara utan heimilis síns. Það þykir sannreynt fyrir norðan, þar sem vörp eru, að það sé hreint og beint bót að því fyrir vörpin að nokkur af eggjunum séu tekin úr hreiðrunum. (Matthías Ólafsson: Það er ekki sannað). Eg skal geta þess til sönnunar mínu máli,. að árið 1840 byrjaði Árni Sigurðsson búskap á Höfða á Skaga. Þar var þá varp, sem gaf af sér 10 pd. af dún. Stundaði hann varpið af alúð og jókst varpið svo, að árið 1880 gaf það af sér 32 pd. Hann hafði fyrir. reglu að skilja aldrei fleiri egg eftir í hreiðri en 4. Hann áleit, að ef kollan þyrfti ekki að sjá fyrir fleiri ungum, þá kæmi hún þeim vel af og þá yrðu þeir þróttmeiri til að standast óblíðu náttúrunnar eftir því sem þeir fengju betri umönnun í uppvextinum. Allir, sem við varp hafa verið, vita, að ungarnir drepast í hrönnum í vondum veðrum á haustin. Þeir rotast þegar brim er mikið, en mundu farast færri þannig lagað, mótstöðuaflið meira, eftir því sem umönnunin og uppeldið er betra.

Á Illugastöðum í Vatnsnesi er varp. Hefir sagt mér kona, sem þar er fædd og uppalin og stundað hefir varp um langan tíma, að sér fyndist bót að því að taka nokkuð af eggjunum úr hreiðrunum; en þau egg, sem eftirskilin væru í hverju hreiðri, ættu helzt að vera á líkum aldri; en auðvitað er ekki hægt að búast við að allir geti séð slíkt, því það vantar mikið á að allir, sem varp stunda, kunni með það að fara svo vel sé.

Ákvæðið í 3. gr. frv. er sama og í núgildandi lögum, að enginn megi hirða, kaupa eða selja dauðan æðarfugl. Það er sett til þess að menn drepi síður fuglinn og segi svo að þeir hafi fundið hann dauðan. En það er hart að banna mönnum að hirða dauðan æðarfugl, þegar hann fellur í harðindum. Í hörðum vetrum fellur hann oft hrönnum saman.

1902 var mikið ísaár fyrir norðan. Þegar fór að líða undir vor, fór fuglinn að færa sig nær varplöndunum, voru allir firðir og flóar fullir af ís, en örlitlar vakir í hann á stöku stað. Fuglinn leitaði í vakirnar á honum og lá þar dauður í hugum svo þúsundum skifti. Það er töluvert hart aðgöngu, að mega ekki hirða æðarfugl undir þessum og bjargræðisskorti. Svo eru ekki litlir peningar í öllum þeim dún, sem fer þannig í sjóinn: og enginn má nota sér. Finst mér að mætti hafa ákveðið þannig, að menn mætti ekki hirða dauðan æðarfugl, nema að þeir gætu sannað, að hann hafi ekki drepist af mannavöldum. Þetta er hægt að sanna þegar fuglinn fellur í harðindum. En ef menn finna einn og einn fugl, sem oft getur verið fyrir, sem þeir treystast ekki til að sanna, að þeir hafi ekki drepið, verða þeir að gera eitt af tvennu, að láta hann vera eða eiga á hættu, að verða sektaðir.