20.08.1913
Neðri deild: 39. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í C-deild Alþingistíðinda. (1093)

64. mál, friðun æðarfugla

Einar Jónsson:

Því miður hugsaðist mér svo seint að tala í þessu máli, að eg hefi ekki haft tíma til að punkta niður hjá mér, það eg ætlaði að segja. Eg ætla að biðja háttv. Efrideildarmenn að taka ekki orð mín svo, að eg sé að ámæla þeim fyrir þennan vanskapnað, sem hér liggur fyrir frá Ed. hendi, en það þarf ekki annað en lesa upp 1. gr. frumv. til að sjá, að það er vanskapnaður. Þar stendur svo:

Hver, sem drepur æðarfugi af ásettu ráði, skal gjalda í sekt 10 kr. fyrir hvern fugl, sem skotinn er. En eg vil spyrja, hver veit sönnur á því, hvort æðarfugl er drepinn af ásettu ráði eða ekki. Skytta getur ekki verið örugg um að vita, hvaða nafn sá fugl hefir, sem hún miðar á á flugi á löngu færi, því æðarfuglar geta flogið æði fjarri skyttunni eins og aðrir fuglar.

Í annari grein stendur:

»Enginn má selja eða kaupa æðaregg, né á nokkurn hátt láta til annara utan heimilis síns, nema eggaskurn til vísindalegra þarfa«.

En mér er ekki kunnugt um neina fuglategund, sem ekki hefir það til að yfirgefa eggin sín. Í því tilfelli, er óþarfa meinsemi að lofa mönnum ekki að hirða eggin og selja þau. (Sigurður Sigurðsson: Það er lítið varið í að hirða fúlegg). Menn eru ekki allir eina seinir á sér eins og háttv. 1. þm. Árn. með köflum, og ef að varpeigandi er aðgætinn og vakandi yfir sínu varpi, getur hann hirt þau egg, sem foreldrið afrækir, áður en þau verða fúl, og þess konar get eg ekki séð að geti verið til skaða fyrir neinn.

Þá stendur í 3. gr.:

»Enginn má hirða, kaupa né selja dauða æðarfugla eða hluta af þeim«. Ef einhver maður rekst á nýdauðan æðarfugl, á hann eftir þessu ekki að mega hirða hann og sjóða til átu, hve svangur sem hann kynni að vera. Þetta virðist einnig nokkuð hart aðgöngu, og eins .og eg gat um í byrjun, hreinasti vanskapningur. Eg mun því leggjast með atkvæði mínu á móti þessu frumvarpi og vona að hið sama geri háttv. þingmenn fleiri.

Í 9. gr. frumv. eru ákvæði, sem gera það að verkum, að eg get ekki aðhylst frumv. Þar er það ákveðið, að enginn má koma á æðarvarpi heima hjá sér, nema senda ýmsar skýrslur til sýslunefndar og fá leyfi hennar jafnframt til þess að búa til eggvarp. Þetta virðist mér vera að ganga nokkuð nærri rétti mannsins, að banna honum að hagnýta sér hlunnindi sinnar jarðar nema með vissum skilyrðum, sem á aðra hlið eru erfið og á hina hlið mjög óviss til samþykkis. Þetta eitt er nóg til að gera frumvarpið óhæfilegt í mínum augum, og mun eg því nú sem fyr verða á móti frumvarpinu